Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, vísar umfjöllun Washington Post um að húsleit Bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) á heimili hans í Mar-a-Lago á bug. Miðillinn greindi frá því í morgun að fulltrúar FBI hafi leitað skjala er varða kjarnorkuvopn.

„Kjarnorkuvopnamálið er blekking“ segir Trump á vef sínum Truth Social. Hann gefur jafnframt til kynna að þeir sem stæðu á bak við húsleitina væru þeir sömu og hefðu reynt að koma honum frá völdum á forsetatíð sinni, með því að kæra hann fyrir embættisbrot.

Auk þess heldur hann því fram að sönnunargögn í Mar-a-Lago hafi verið komið fyrir á vettvangi af fulltrúum FBI. „Hvers vegna myndi FBI ekki leyfa lögmönnum okkar að vera viðstaddir húsleitina?“ spyr hann.

Fram kemur í umfjöllun Reuters um málið að Trump bendi ekki á nein sönnunargögn máli sínu til stuðnings.