Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, íhugar nú hvenær hann ætli að tilkynna framboð sitt til forseta fyrir árið 2024, en þessa dagana er hann í óða önn að reyna að ná aftur tökum á ímynd sinni í kjölfar skaðlegra afhjúpana þingnefndarinnar sem sett var á laggirnar til að rannsaka þátt hans í óeirðunum í bandaríska þinghúsinu 6. janúar í fyrra. Fimm létust í óeirðunum eða í kjölfar þeirra. CNN greinir frá.

Að sögn heimildarmanna hefur Trump tjáð samstarfsmönnum sínum að hann vilji ólmur setja af stað kosningaherferð, jafnvel í þessum mánuði. Með því útspili vilji hann hagnast á slæmu fylgi Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, í skoðanakönnunum sem og láta mögulega keppinauta sína innan Repúblikana flokksins vita um fyrirætlanir sínar.

Ákefð hans að flýta fyrir tilkynningu vegna fyrirhugaðrar kosningaherferðar varð enn meiri eftir að fyrrum aðstoðarmaður hjá Hvíta Húsinu, Cassidy Hutchinson, vakti upp ýmsar spurningar við yfirheyrslur á þingnefndarinnar í vikunni, um hegðun Trumps á síðustu mánuðum kjörtímabils hans.

Þá hafa nokkrir stuðningsmenn Trump viðurkennt að hinir opinberu áheyrnarfundir þingnefndarinnar hafi reynst Trump skaðlegri en þeir gerðu ráð fyrir, þar sem rannsakendur haldi áfram að opinbera brot af eiðsvörnum vitnisburðum núverandi og fyrrverandi ráðgjafa Trump. Þar grafa ráðgjafarnir undan fölskum fullyrðingum Trump um forsetakosningarnar árið 2020 og vekja upp nýjar spurningar um hugsanlega lögsókn á hendur Trump.

Áheyrnarfundir þingnefndarinnar hafa reynst Trump skaðlegri en stuðningsmenn Trump gerðu upphaflega ráð fyrir.
Mynd/Getty

Yfirheyrslurnar hafa legið mjög þungt á Trump, sem eyddi meirihlutanum af níutíu mínútna ræðu sem hann hélt fyrir evangelíska íhaldsmenn í síðasta mánuði, að kvarta yfir yfirheyrslunum. Þá hefur hann birt á annan tug færslna á vefsíðu sína, Truth Social, sem hafa það að markmiði að grafa undan trúverðugleika Hutchinson.

Síðustu daga hafa nokkrir af nánustu ráðgjöfum Trumps haft samband við nánustu stuðningsmenn hans, til þess að tilkynna þeim að Trump sé alvara, hann sé að íhuga að stíga fram og tilkynna forsetaframboð sitt, fyrr en áætlanir stóðu til.

Heimildarmaður innan Repúblíkana flokksins segist hafa heyrt að tímasetningin sem um ræðir sé fyrsta vikan í júlí.

Þá hefur annar heimildarmaður sagt að það væri ólíklegt að Trump færi að tilkynna nokkuð án þess að láta alla helstu fjölmiðla landsins vita, til þess að tryggja hámarks umfjöllun.