Donald Trump Banda­ríkja­for­seti segist ætla að krefjast þess að Joe Biden, for­seta­fram­bjóðandi Demó­krata, fari í lyfja­próf fyrir eða eftir kapp­ræður þeirra næst­komandi þriðju­dag en Trump greinir frá þessu í færslu á Twitter síðu sinni.

„Ég mun ein­dregið fara fram á lyfja­próf frá syfju­lega Joe Biden fyrir, eða eftir, kapp­ræðurnar á þriðju­dags­kvöldinu. Eðli­lega, mun ég einnig sam­þykkja að taka slíkt próf,“ sagði Trump og vísaði til þess að í gegnum tíðina hafi frammi­staða Biden í kapp­ræðum verið veru­lega mis­jöfn.

Að mati Trumps getur sá mis­munur að­eins skýrst af því að hann sé á lyfjum en Trump hefur reglu­lega talað um að Biden sé syfju­legur þegar hann kemur fram og kallað hann „Sleepy Joe Biden.“ Hvorki Biden né vara­for­seta­fram­bjóðandi hans, Kamala Har­ris, hafa tjáð sig um á­skorun Trumps í dag.

Vekja frekar athygli á baráttumálum

Biden og Har­ris hafa frá því í gær nýtt sam­fé­lags­miðla til að ræða til­nefningu Trumps í Hæsta­réttar Banda­ríkjanna en Trump hefur til­nefnt hina í­halds­sömu Amy Con­ey Bar­rett í sæti Ruth Bader Gins­burg.

Að þeirra mati myndi skipun Bar­rett hafa gífur­leg á­hrif á líf Banda­ríkja­manna, sem glíma nú við af­leiðingar CO­VID-19, en Bar­rett hefur í gegnum tíðina sýnt að hún sé á móti nú­verandi heil­brigðis­kerfi Banda­ríkjanna.

Fyrstu for­seta­kapp­ræðurnar af þremur fara fram á þriðju­daginn í Ohio en þær hefjast klukkan 1 að­fara­nótt mið­viku­dagsins að ís­lenskum tíma. Ó­ljóst er hvort Biden muni fallast á lyfja­próf Trumps en ljóst er að það er ýmis­legt sem for­seta­fram­bjóð­endurnir koma til með að takast á um.