Donald Trump fundaði með G7 hópnum í Frakklandi í dag.

Aðspurður hvort Trump hygðist draga úr viðskiptastríði við Kína eftir að hafa tilkynnt um nýja viðskiptatolla á föstudag svaraði hann að það væri vel mögulegt.

„Já alveg eins, af hverju ekki?“ svaraði Trump. „Ég fæ bakþanka varðandi allt.“

Aðspurður hvort hann fyndi fyrir þrýstingi hinna úr G7-hópnum um að draga úr viðskiptaþvingunum við Kína sagði hann svo alls ekki vera.

Ummælin eru nokkuð óvænt þar sem Trump hefur sótt fylgi sitt í konsingabaráttunni sinni til endurkjörs 2020 með því að setja aukinn þunga í viðskiptastríð við Kína og hefur hann blásið á gagnrýnisraddir undanfarið um að lægð sé væntanleg í efnahagslífinu.

Johnson og Trump funduðu um fríverslunarsamning

Johnson og Trump hittust einnig í fyrsta sinn eftir að Johnson varð forsætisráðherra og áttu þeir morgunverðarfund í morgun.

Johnson sagði að frábær samningur myndi nást þegar búið væri að ryðja ákveðnum hindrunum úr vegi. Trump svaraði því á þá leið: „Við ætlum að gera fullt af samningum. Það er gaman hjá okkur“

Tilkynnti Trump jafnframt að unnið væri að fríverslunarsamningi við Bretland, sennilega þeim stærsta í sögunni, og að hann yrði vonandi kláraður sem fyrst og hlóð hann breska forsætisráðherrann lofi og sagði hann rétta manninn til að fara fyrir útgöngu Breta úr ESB. Hann hefði lengi stutt Johnson.