Donald Trump, fyrrum for­seti Banda­ríkjanna, er sagður vera að undir­búa þriðja fram­boð sitt til for­seta Banda­ríkjanna. Hann boðaði til­kynningu síðar í dag, þar sem fastlega er búist við því að hann tilkynni framboð sitt.

„Vonandi mun morgun­dagurinn reynast einn mikil­vægasti dagur í sögu lands okkar,“ skrifaði Trump í gær á sam­fé­lags­miðilinn sinn, Truth Social.

AP frétta­stofan full­yrðir að hann muni til­kynna fram­boð sitt til for­seta í þessari til­kynningu, klukkan 21 í Flórída, en klukkan tvö að nóttu til á ís­lenskum tíma. Næstu for­seta­kosningar í Banda­ríkjunum fara fram árið 2024.

Trump bauð sig fyrst fram til for­seta fyrir for­seta kosningarnar árið 2016, þar sem hann sigraði Hillary Clin­ton eins og frægt er orðið. Fyrir kosningarnar árið 2020 bauð hann sig aftur fram, þá á móti Joe Biden. Trump tapaði í seinna skiptið en neitaði að viður­kenna úr­slit kosninganna og talar enn um að kosningunum hafi verið stolið af honum.

Á sínu fyrsta, og eina kjör­tíma­bili til þessa, varð Trump fyrsti for­setinn til þess að verða á­kærður tvisvar sinnum fyrir em­bættis­glöp. Þá stendur hann einnig frammi fyrir röð saka­mála­rann­sókna, en þar á meðal er rann­sókn banda­ríska dóms­mála­ráðu­neytisins þar sem hann er sakaður um að hafa tekið trúnaðar­skjöl frá Hvíta húsinu og flutt þau á heimili hans í Mar-a-Lago, þar sem þau fundust fyrr í haust.

Ráð­gjafar Trump höfðu ráð­lagt Trump að til­kynna fram­boðið eftir mið­kjör­tíma­bils­kosningarnar sem haldnar voru í byrjun nóvember, þá var honum einnig ráð­lagt að bíða með til­kynningu þangað til eftir auka­kosningarnar sem haldnar eru í Georgíu 6. desember.

Trump virðist þó hafa hunsað þær ráð­leggingar og hefur boðað þessa til­kynningu, en hefur þó ekki gefið út hvers eðlis þessi til­kynning er. Það er þó fast­lega búist við því að hún tengist for­seta­fram­boði hans.