Donald Trump, fyrrum forseti Bandaríkjanna, er sagður vera að undirbúa þriðja framboð sitt til forseta Bandaríkjanna. Hann boðaði tilkynningu síðar í dag, þar sem fastlega er búist við því að hann tilkynni framboð sitt.
„Vonandi mun morgundagurinn reynast einn mikilvægasti dagur í sögu lands okkar,“ skrifaði Trump í gær á samfélagsmiðilinn sinn, Truth Social.
AP fréttastofan fullyrðir að hann muni tilkynna framboð sitt til forseta í þessari tilkynningu, klukkan 21 í Flórída, en klukkan tvö að nóttu til á íslenskum tíma. Næstu forsetakosningar í Bandaríkjunum fara fram árið 2024.
Trump bauð sig fyrst fram til forseta fyrir forseta kosningarnar árið 2016, þar sem hann sigraði Hillary Clinton eins og frægt er orðið. Fyrir kosningarnar árið 2020 bauð hann sig aftur fram, þá á móti Joe Biden. Trump tapaði í seinna skiptið en neitaði að viðurkenna úrslit kosninganna og talar enn um að kosningunum hafi verið stolið af honum.
Á sínu fyrsta, og eina kjörtímabili til þessa, varð Trump fyrsti forsetinn til þess að verða ákærður tvisvar sinnum fyrir embættisglöp. Þá stendur hann einnig frammi fyrir röð sakamálarannsókna, en þar á meðal er rannsókn bandaríska dómsmálaráðuneytisins þar sem hann er sakaður um að hafa tekið trúnaðarskjöl frá Hvíta húsinu og flutt þau á heimili hans í Mar-a-Lago, þar sem þau fundust fyrr í haust.
Ráðgjafar Trump höfðu ráðlagt Trump að tilkynna framboðið eftir miðkjörtímabilskosningarnar sem haldnar voru í byrjun nóvember, þá var honum einnig ráðlagt að bíða með tilkynningu þangað til eftir aukakosningarnar sem haldnar eru í Georgíu 6. desember.
Trump virðist þó hafa hunsað þær ráðleggingar og hefur boðað þessa tilkynningu, en hefur þó ekki gefið út hvers eðlis þessi tilkynning er. Það er þó fastlega búist við því að hún tengist forsetaframboði hans.