Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilnefnt Amy Coney Barrett til að taka sæti dómara í Hæstarétt Bandaríkjanna en Trump tilkynnti um tilnefninguna rétt í þessu í Rósagarði Hvíta hússins. Repúblikanar hafa lýst því yfir að þeir vilji staðfesta tilnefninguna fyrir komandi forsetakosningar í nóvember.

Trump sagðist hafa fulla trú á hinni 48 ára gömlu Barrett þegar hann tilkynnti tilnefninguna og vísaði til að hún hafi meðal annars starfað með hæstaréttardómaranum Antonin Scalia, sem lést árið 2016, sem væru frábær meðmæli. „Þú átt eftir að vera frábær,“ sagði Trump og bætti við að hún væri einstaklega hæf til að sinna starfinu.

Íhaldssamir dómarar verði sex

Íhaldsamir stjórnmálamenn hafa fagnað tilnefningunni en Barrett er á móti fóstureyðingum og mikill talsmaður þess að fólk fái að bera skotvopn. Í ræðu sinni þegar hún tók við tilnefningunni hét hún því að hún myndi virða stjórnarskrá Bandaríkjanna og vera meðvituð um þá sem sinntu starfinu á undan henni. Verði hún skipuð verður hún fimmta konan til að gegna embætti dómara við réttinn og jafnframt sú yngsta.

Dómarasæti losnaði við dómstólinn eftir andlát Ruth Bader Ginsburg í síðustu viku en hún var skipuð við réttinn árið 1993 af Bill Clinton og var einn af frjálslyndari dómurum við réttinn. Ef tilnefning Barrett gengur eftir verða alls sex dómarar sem tilheyra íhaldssamari armi réttarins gegn þremur sem tilheyra hinum frjálslyndari.

Mótmæla ákvörðuninni

Demókratar hafa mótmælt ákvörðun Trump um að skipa nýjan dómara og hafa vísað til þess árið 2016, eftir að Scalia lést, þegar Mitch McConnel, leiðtogi Repúblikana innan öldungadeildar Bandaríkjaþings, mælti gegn því að nýr dómari yrði skipaður áður en forsetakosningar færu fram. Þá var það hinsta ósk Ginsburg að dómari yrði ekki skipaður í hennar stað fyrr en nýr forseti hefði tekið við.

Nú hefur McConnel aftur á móti heitið því að öldungadeildin komi til með að samþykkja tilnefninguna áður en kosningarnar fara fram. Gengur það eftir verður mögulega um að ræða stysta tíma í sögu Hæstaréttar sem það tekur að skipa nýjan dómara við réttinn. Búast má því við að skipun dómara verði enn eitt baráttumálið fyrir komandi forsetakosningar.

Fréttin hefur verið uppfærð.