Donald Trump, fyrr­verandi for­seti Banda­ríkjanna, virtist ýja að fram­boði til for­seta árið 2024 í ræðu sinni á CPAC-ráð­stefnunni (e. the Con­servati­ve Politi­cal Action Conference) í Flórída í gær en þetta var í fyrsta sinn sem Trump hélt ræðu opin­ber­lega frá því að Joe Biden tók við em­bætti Banda­ríkja­for­seta þann 20. janúar síðast­liðinn.

„Þetta er langt frá því að vera búið. Við erum rétt byrjuð,“ sagði Trump þegar hann á­varpaði ráð­stefnuna en hann vísaði þar veg­ferðar sinnar að em­bættinu og hlaut mikil fagnaðar­læti frá við­stöddum. „Við verðum sigur­sæl og Banda­ríkin verða sterkari og betri en nokkru sinni fyrr.“

Hann sagði næstu ár vera mikil­væg í bar­áttunni gegn „rót­tæku Demó­krötunum, fals­frétta fjöl­miðlum og þeirra eitruðu af­lýsingar­menningu.“ Þá sagðist hann ekki stefna á að stofna nýjan flokk, þar sem slíkt gæti klofið Repúblikana­flokkinn, heldur þurfi Repúblikanar að mæta þeirri á­skorun sem þau standa nú frammi fyrir.

Vandaði Biden ekki kveðjurnar

Trump ræddi einnig Biden og ríkis­stjórn hans en hann sagði stefnu ríkis­stjórnarinnar vera að setja Banda­ríkin í síðasta sæti, á meðan Trump vildi setja Banda­ríkin í fyrsta sæti. Þá sakaði hann Biden um lygar og sagði að hann væri and­snúinn at­vinnu, fjöl­skyldu, landa­mærum, orku­málum, konum, og vísindum.

„Við vissum öll að Biden stjórnin yrði slæm. En enginn okkar gat í­myndað sér ná­kvæm­lega hversu slæm hún yrði og hversu langt hún myndi ganga,“ sagði Trump í ræðu sinni en hann setti sér­stak­lega út á við­brögð Bidens við landa­mæra­öryggi og CO­VID-19. „Á einum stuttum mánuði höfum við farið frá því að setja Banda­ríkin í fyrsta sæti, yfir í að setja Banda­ríkin í síðasta sæti.“

Kallaði Cheney „stríð­sæsingar­konu“

Líkt og áður segir var þetta fyrsta ræðan sem Trump hefur flutt opin­ber­lega frá því að hann lét af störfum sem for­seti en hann hefur sætt mikilli gagn­rýni síðast­liðnar vikur, ekki síst eftir að bar­áttu hans til að fá úr­slitunum for­seta­kosninganna snúið lauk með inn­rás stuðnings­manna Trumps inn í banda­ríska þing­húsið.

Trump var að lokum sýknaður af á­kæru til em­bættis­missis vegna málsins en í ræðu sinni í gær beindi hann spjótum sínum að þing­mönnum Repúblikana sem kusu gegn honum, þar á meðal Liz Chen­ey, full­trúa­deildar­þing­manni Repúblikana, en Trump kallaði hana „stríð­sæsingar­konu.“

Lofaði endurkomu

Þá vandaði hann Hæsta­rétt Banda­ríkjanna, sem neitaði að ó­gilda úr­slit for­seta­kosninganna, ekki kveðjurnar en hann í­trekaði full­yrðingar sínar um að kosninga­svindl hafi átt sér stað í nóvember. „Hvernig í ó­sköpunum er það mögu­legt að við töpuðum? Það er ekki mögu­legt,“ sagði Trump en stærti sig af því að Repúblikanar hafi haldið þing­manna­sætum sínum þökk sé honum.

„Með ykkar hjálp munum við ná meiri­hluta innan full­trúa­deildarinnar á ný. Við munum ná meiri­hluta innan öldunga­deildarinnar. Og síðan mun for­seti úr röðum Repúblikana snúa aftur sigur­sæll í Hvíta húsið. Hver ætli það verði?“ sagði Trump og virtist þar með ýja að því að hann myndi snúa aftur.