Donald Trump Bandaríkjaforseti segist hafa séð vísbendingar þess efnis að uppruna kórónuveirunnar sem veldur Covid-19 megi rekja til rannsóknarstofu í borginni Wuhan. Þetta sagði Trump á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gærkvöldi, að því er segir í frétt BBC

Ummæli Trumps þykja skjóta skökku við því í gær sendi Stofnun miðlægrar greiningardeildar í Bandaríkjunum, Director of National Intelligence, frá sér yfirlýsingu þess efnis engar vísbendingar væru um að veiran hefði orðið til af mannavöldum eða átt hafi verið við erfðaefni hennar með einhverjum hætti. Rannsókn stæði þó yfir.

Donald Trump hefur ítrekað gagnrýnt Kínverja fyrir viðbrögð þeirra við faraldrinum og látið að því liggja að þeir hefðu getað stöðvað faraldurinn í fæðingu. Á blaðamannafundi í gær var Trump spurður hreint út hvort hann hefði séð eitthvað sem gæfi tilefni til að ætla að veiran ætti rætur að rekja til tilraunastofu í veirufræði í borginni Wuhan. 

Trump svaraði spurningunni játandi en fór ekki nánar í saumana á þeim upplýsingum sem hann hefði séð. Hann sagðist ekki mega gefa umræddar upplýsingar. Hann bætti þó við að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin ætti að skammast sín því hún hefði hagað sér eins og almannatengslafyrirtæki í þágu kínverskra yfirvalda. 

New York Times greindi frá því í gær að fulltrúar Hvíta hússins hefðu farið þess á leit að Stofnun miðlægrar greiningardeildar rannsakaði hvort veiran hefði komið frá rannsóknarstofu í Kína. Þá hefði stofnunin verið beðin um að skoða hvort Kína og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefðu leynt upplýsingum um veiruna áður en faraldurinn fór af stað.