Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tók upp hanskann fyrir Rússa að loknum fundi með Vladímír Pútín en þeir hittust í Helsinki í Finnlandi í dag. Sagðist Trump ekki sjá ástæðu fyrir Rússa að skipta sér af forsetakosningunum árið 2016 þar sem Trump hafði betur en Hillary Clinton.

„Pútín segir að þetta sé ekki af völdum Rússa. Ég sé enga ástæðu af hverju það ætti að vera svo,“ sagði Trump en Pútín ítrekaði það sem hann hefur áður sagt að Rússar hafi hvergi komið nærri kosningunum.

Leyniþjónustur í Bandaríkjunum sögðust árið 2016 hafa komist að þeirri niðurstöðu að Rússar hafi í raun reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar með ríkisrekinni baráttu gegn Clinton þar sem tölvuárásir og uppspretta falsfrétta spiluðu stórt hlutverk. 

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna sótti tólf rússneska leyniþjónustumenn til saka fyrir að hafa ráðist inn á netföng starfsmanna Clinton framboðsins og upplýsingum um hálfa milljón kjósenda. Þá fer Robert Mueller, saksóknari, enn með rannsókn á meintum tengslum forsetans við Rússa og önnur ríki.

Pútín sagði fundinn hafa verið einlægan og gagnlegan. Trump hafði fyrir fund sagt að samband ríkjanna, Rússa og Bandaríkjamanna, hefði aldrei verið verra. Eftir að þeir hafi hist sé það nú betra.