Donald Trump, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seti, var í kvöld sýknaður af á­kæru til em­bættis­missis af öldunga­deild Banda­ríkja­þings. Hann var á­kærður fyrir að hafa stutt við á­rásina á þing­hús landsins 6. janúar. Alls þurftu 34 öldungar­deildar­þing­menn að kjósa gegn á­kærunni til að hann yrði sýknaður eða einn þriðji af öldunga­deildinni.

Marco Ru­bio, öldunga­deilda­þing­maður Flórída, greiddi 34. at­kvæði gegn á­kærunni. At­hygli vakti að Mitt Rom­n­ey, fyrr­verandi for­seta­fram­bjóðandi og sam­flokks­maður Trumps, kaus með því að sak­fella hann. Allir öldunga­deildar­þing­menn Demó­krata kusu með sak­fellingu.

Mitt Romney ræðir við fjölmiðla fyrr í dag.
Fréttablaðið/EPA

Í heild kusu sjö Repúblikanar að sak­fella Trump. Þeir voru, auk Rom­n­ey sem er í öldunga­deildinni fyrir Utah, Susan Collins frá Maine, Lisa Mur­kowski frá Alaska, Ben Sasse frá Utah, Bill Cassi­dy frá Lousiana, Pat­rick J. Too­mey frá Penn­syl­vaníu og Richard M. Burr frá Norður-Karó­línu.

Þetta var í annað skiptið sem for­setinn var á­kærður til em­bættis­missis en áður hafði hann verið á­kærður fyrir meinta aðild sína að hneyklis­máli er varðaði Úkraínu. Hann var sýknaður í því máli en þá fóru sam­flokks­menn for­setans í öldunga­deildinni með völd þar en misstu meiri­hlutann fyrir skömmu. Demó­kratar hafa eins manns meiri­hluta í öldunga­deildinni.

Frá mál­flutningi lög­manna Trump í öldunga­deildinni fyrr í dag.
Fréttablaðið/EPA

Fyrr í dag stóð til að vitna­leiðslur færu fram í málinu en ekki varð af því eftir að for­svars­menn Demó­krata í full­trúa­deildinni, sem á­kærðu Trump, sömdu við lög­manna­t­eymi for­setans um að í staðinn myndi eitt vitni leggja fram vottaða skýrslu með fram­burði sínum. Vitna­leiðslur hefðu dregið mála­reksturinn mjög á langinn og sam­kvæmt banda­rískum fjöl­miðlum var for­svars­mönnum beggja flokka mjög í mun að málið yrði lokið sem fyrst.

Við málflutning sinn sögðu Demókratar að forsetinn hefði „viljandi svikið okkur öll“ með meintum stuðningi sinni við þá sem réðust gegn þinghúsinu. Lögmenn hans héldu því hins vegar fram að hann hefði enga ábyrgð borið á uppákomunni.

Fréttin verður uppfærð.