Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er ekki sáttur við störf Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, í kringum kórónaveirufaraldurinn. Trump tilkynnti það í kvöld að Bandaríkin myndu hætta að greiða fjárframlög til stofnunarinnar. Bandarísk stjórnvöld hafa síðustu ár styrkt WHO með um það bil 400 til 500 milljónum dollara.

Trump boðar úttekt á viðbrögðum WHO við veirunni og að meðan störf stofnunarinnar verða skoðuð verði styrkveiting bandarískra stjórnvalda stöðvuð. Sjálfur hefur Trump verið harðlega gagnrýndur fyrir að blása á áhyggjur af faraldrinum í upphafi hans og að hafa gert lítið úr veirunni. Forsetinn var talinn hafa brugðist seint og illa við en hann beinir hins vegar spjótum sínum að öðrum embættismönnum.

„Ef WHO hefði sinnt starfi sínu almennilega og sent sérfræðinga í læknavísindum til Kína í upphafi faraldursins til þess að meta ástandið með hlutlægum hætti þá hefði mátt halda dauðsföllum vegna veirunnar í lágmarki. Þá hefði verið hægt að koma í veg fyrir skortinn á gagnsæinu hjá kínverskum stjórnvöldum og að faraldrinum fengi að breiðast út um heim allan," segir Trump í samtali við fjölmiðla.

Þessi ákvörðun Trump felur ekki í sér fyrstu gagnrýni hans á alþjóðlegt samstarf. Á meðan forsetatíð hans hefur staðið yfir hefur hann til að mynda ítrekað sett spurningarmerki við fjárveitingar Bandaríkjanna til Sameinuðu þjóðanna, neitað að skrifa undir alþjóðlega samninga um loftslagsmál og úthúðað Alþjóðaviðskiptastofnuninni.