Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í gær að Bandaríkin ætluðu að rifta Íranssamningnum svokallaða af sinni hálfu og koma á viðskiptaþvingunum gegn Íran á ný. Trump hafði oftsinnis lofað að rifta samningnum, bæði í kosningabaráttu sinni og eftir að hann varð forseti, og reglulega sagt hann „versta samning allra tíma“.

„Þetta var hörmulegur einhliða samningur sem hefði aldrei nokkurn tímann átt að vera gerður,“ sagði Trump. Hann sagði að hvert það ríki sem aðstoðaði Írana við kjarnorkuáætlun sína gæti lent í að vera beitt viðskiptaþvingunum.

Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína, Rússland, Þýskaland og Evrópusambandið gerðu samninginn við Íran árið 2015 eftir langar viðræður. Hann setur takmarkanir á getu Írans til að vinna að kjarnorkuáætlun sinni og samkvæmt Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni hafa Íranar staðið við sitt.

Sjá einnig: Obama segir á­kvörðun Trump „van­hugsaða“

Á móti samþykktu kjarnorkuveldin, auk Þýskalands og Evrópusambandsins, að aflétta viðskiptaþvingunum gegn Íran og að affrysta íranskar eignir, virði um hundrað milljarða dala.

Hassan Rouhani, forseti Írans, sagði í gær að það tæki Írana nokkrar vikur til að ákveða hvernig svara eigi riftun Bandaríkjanna. Samningurinn gilti enn við hin ríkin.

Andstæðingar samningsins, einna helst Trump og Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hafa áður sagt að með gerð hans fái Íranar aðgang að miklu fjármagni sem hægt sé að nota til að fjármagna herbrölt.

Gildistími ákvæða samningsins hefur einnig verið harðlega gagnrýndur.