Rudy Giuli­ani er ekki mál­svari Donalds Trump, fyrr­verandi for­seta Banda­ríkjanna, í neinum málum að svo stöddu en Giuli­ani hefur í gegnum tíðina verið helsti lög­maður Trumps og átti stóran hlut í bar­áttu Trumps til að fá úr­slitum for­seta­kosninganna í nóvember snúið.

Sam­skipti þeirra versnuðu tölu­vert eftir ó­eirðirnar við þing­húsið þann 6. janúar en Trump var á­kærður til em­bættis­missis fyrir að hvetja til upp­reisnar þann dag. Aðilar tengdir for­setanum greindu frá því eftir að Trump var á­kærður að hann væri reiður út í Giuli­ani vegna málsins.

Jason Miller, einn helsti ráð­gjafi Trumps, greindi frá því í gær að á­stæðan fyrir því að Giuli­ani færi ekki fyrir neinum málum fyrir hönd Trumps væri að Trump ætti ekki yfir höfði sér nein mál þar sem hann þarfnast að­stoð Giuli­ani. Að sögn Miller er Giuli­ani enn „banda­maður og vinur“ fyrrum for­setans.

Ýmsar sakamálarannsóknir í vændum

Trump á nú von á ýmsum saka­mála­rann­sóknum, til að mynda vegna sím­tala hans til yfir­valda í Georgíu þar sem hann reyndi að fá þau til að breyta úr­slitum kosninganna í ríkinu og vegna meintra skatt­svika í Man­hattan. Þá hafa tvær konur sem hafa sakað Trump um kyn­ferðis­lega mis­notkun höfðað meið­yrða­mál gegn honum.

Þar að auki hafa margir gefið það í skyn að saka­mála­rann­sókn muni hefjast vegna hegðunar Trumps þann 6. janúar en margir halda því fram að Trump beri einn á­byrgð á að­gerðum stuðnings­manna sinna. Að því er kemur fram í frétt CNN er Trump sagður hafa á­hyggjur vegna þeirrar rann­sóknar.

Það er þó ekki að­eins Trump sem hefur verið bendlaður við ó­eirðirnar. Full­trúa­deildar­þing­maðurinn Benni­e Thomp­son hefur höfðað einka­mál gegn bæði Trump og Giuli­ani fyrir að sitja á svik­ráðum við öfga­hópinn Proud Boys og er vísað til þess að Giuli­ani hafi sagt við múginn að þau þyrftu að berjast.

Þá á Giuli­ani einnig yfir höfði sér kærur frá kosninga­tækja­fram­leið­endunum Smart­matic og Dominion þar sem hann hélt því í­trekað fram að tæki þeirra tengdust meintu kosninga­svindli í nóvember.