Rudy Giuliani er ekki málsvari Donalds Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, í neinum málum að svo stöddu en Giuliani hefur í gegnum tíðina verið helsti lögmaður Trumps og átti stóran hlut í baráttu Trumps til að fá úrslitum forsetakosninganna í nóvember snúið.
Samskipti þeirra versnuðu töluvert eftir óeirðirnar við þinghúsið þann 6. janúar en Trump var ákærður til embættismissis fyrir að hvetja til uppreisnar þann dag. Aðilar tengdir forsetanum greindu frá því eftir að Trump var ákærður að hann væri reiður út í Giuliani vegna málsins.
Jason Miller, einn helsti ráðgjafi Trumps, greindi frá því í gær að ástæðan fyrir því að Giuliani færi ekki fyrir neinum málum fyrir hönd Trumps væri að Trump ætti ekki yfir höfði sér nein mál þar sem hann þarfnast aðstoð Giuliani. Að sögn Miller er Giuliani enn „bandamaður og vinur“ fyrrum forsetans.
Simply that there are no pending cases where Mayor Giuliani is representing the President. The Mayor remains an ally and a friend. https://t.co/oV58sap9yO
— Jason Miller (@JasonMillerinDC) February 16, 2021
Ýmsar sakamálarannsóknir í vændum
Trump á nú von á ýmsum sakamálarannsóknum, til að mynda vegna símtala hans til yfirvalda í Georgíu þar sem hann reyndi að fá þau til að breyta úrslitum kosninganna í ríkinu og vegna meintra skattsvika í Manhattan. Þá hafa tvær konur sem hafa sakað Trump um kynferðislega misnotkun höfðað meiðyrðamál gegn honum.
Þar að auki hafa margir gefið það í skyn að sakamálarannsókn muni hefjast vegna hegðunar Trumps þann 6. janúar en margir halda því fram að Trump beri einn ábyrgð á aðgerðum stuðningsmanna sinna. Að því er kemur fram í frétt CNN er Trump sagður hafa áhyggjur vegna þeirrar rannsóknar.
Það er þó ekki aðeins Trump sem hefur verið bendlaður við óeirðirnar. Fulltrúadeildarþingmaðurinn Bennie Thompson hefur höfðað einkamál gegn bæði Trump og Giuliani fyrir að sitja á svikráðum við öfgahópinn Proud Boys og er vísað til þess að Giuliani hafi sagt við múginn að þau þyrftu að berjast.
Þá á Giuliani einnig yfir höfði sér kærur frá kosningatækjaframleiðendunum Smartmatic og Dominion þar sem hann hélt því ítrekað fram að tæki þeirra tengdust meintu kosningasvindli í nóvember.
New: Rep. Bennie Thompson filed a lawsuit in federal court today against Trump, Giuliani, the Proud Boys, and the Oath Keepers alleging they conspired to interfere with Congress's certification of the election, in violation of the Ku Klux Klan Act https://t.co/suhMsNVyii pic.twitter.com/BIuEAMB0PH
— Zoe Tillman (@ZoeTillman) February 16, 2021