Donald Trump Bandaríkjaforseti bar í gær grímu í fyrsta sinn frá því að kórónaveirufaraldurinn hófst. Hann lét sjá sig með svarta grímu í fylgd með herforingjum sem báru sams konar grímur þegar hann heimsótti hersjúkrahúsið kennt við Walter Reed í borginni Bethesda í Maryland-fylki.

Hingað til hefur forsetinn neitað að bera grímu og gert lítið úr smithættunni og tillögum sóttvarnaryfirvalda í Bandaríkjunum.

Segir ekki alltaf nauðsynlegt að bera grímu

Aðspurður hvers vegna hann hafi ákveðið að setja upp grímu núna sagði forsetinn að það væri vegna þess að hann væri að hitta slasaða hermenn á sjúkrahúsi. Því væri viðeigandi að bera grímu í þessu tilviki. Hann sagðist þó ekki ætla að gera þetta að vana. Hann láti duga að halda sinni fjarlægð frá fólki. Auk þess fara allir sem hitta forsetann í sýnatöku.

Í spjalli við Fox Business Network sagðist forsetinn ekki vera á móti grímum. Honum þætti meira að segja flott að bera grímu.

„Mér fannst ég líta vel út. Þetta var dökk eða svört gríma og ég leit út eins og kúrekaeinfarinn,“ sagði Trump og vísaði í gömlu kúrekamyndina The Lone Ranger í spjallinu rétt eftir þriðju mínútu í eftirfarandi myndbandi.

Rúmlega þrjár milljónir manna hafa greinst með COVID-19 í Bandaríkjunum samkvæmt John Hopkins háskólanum. Um allan heim er tala sýktra 12,7 milljónir. Því er um fjórðungur allra smita í Bandaríkjunum.

Anthony Fauci, sóttvarnarlæknir Bandaríkjanna, hefur lýst því yfir að stjórn landsins á faraldrinum sé alls ekki góð.