Donald Trump, for­seti Banda­ríkjanna, þver­tekur fyrir það að hafa gert lítið úr hættunni af kórónu­veirunni sem veldur CO­VID-19. Trump svaraði spurningum á borgara­fundi í beinni út­sendingu hjá ABC News í gær­kvöldi þar sem þetta kom meðal annars fram.

At­hygli vekur að Trump viður­kenndi í hljóð­rituðu við­tali við blaða­manninn Bob Woodward fyrr á þessu ári að hafa ein­mitt gert lítið úr hættunni af CO­VID-19, að sögn til að valda ekki upp­námi í sam­fé­laginu.

Á borgara­fundinum í gær­kvöldi neitaði Trump þessu stað­fast­lega og sagðist raunar hafa gert mikið úr hættunni af CO­VID-19 strax í byrjun, eins og fram kemur í um­fjöllun BBC um borgara­fundinn.

Þá sagði Trump einnig að bólu­efni gegn CO­VID-19 yrði til­búið „innan nokkurra vikna“ (e. „wit­hin we­eks“) þrátt fyrir efa­semdir sér­fræðinga þess efnis. Enn sem komið er hefur ekkert bólu­efni farið í gegnum klínískar prófanir og því alls ó­víst hvort öruggt bólu­efni líti dagsins ljós fyrr en um mitt næsta ár.

Á fundinum var Trump spurður hvers vegna hann hafi á­kveðið að gera lítið úr far­aldrinum strax í byrjun gegn betri vit­neskju. Trump sagðist ekki hafa gert lítið úr honum, þvert á móti hafi hann að mörgu leyti gert mikið úr honum – að minnsta kosti með til­liti til á­kvarðana og gjörða.

„Við­brögð mín voru hörð,“ sagði hann og nefndi í því sam­hengi ferða­bann frá Kína og Evrópu sem sett var á fyrr á þessu ári. „Við hefðum misst þúsundir til við­bótar hefði bannið ekki verið sett á. Við björguðum mörgum manns­lífum þegar við gerðum það.“