Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump hefur fordæmt árásina á Paul Pelosi eiginmann forseta Bandaríkjaþings, Nancy Pelosi.
Árásarmaður braust inn á heimili Pelosi hjónanna í San Fransisco síðastliðinn föstudag og réðst á hinn 82 ára gamla Paul Pelosi og sló hann í höfuðið með hamri. Pelosi var í kjölfarið fluttur á spítala. Greint hefur verið frá því í fjölmiðlum vestanhafs að árásarmaðurinn hafi öskrað „Hvar er Nancy,“ þegar hann réðst á eiginmann hennar.
Nú hefur Donald Trump, fyrrum forseti Bandaríkjanna tjáð sig um málið, en hann sagði að árásin á Pelosi hafi verið hræðileg.
„Árásin á Paul Pelosi er hræðileg,“ sagði Trump í viðtali við Americano Media, en hann var að ræða hækkandi glæpatíðni í borgum sem eru undir stjórn Demókrata.
„Sjáðu hvað gerðist í San Fransisco. Sjáðu hvað er að gerast í Chicago. Það er miklu verra en Afganistan,“ sagði forsetinn fyrrverandi.
Árásarmaðurinn David DePape, sem var handtekinn á föstudag vegna málsins, hefur birt rasískar athugasemdir og færslur á netinu þar sem hann einnig efaðist um niðurstöður forsetakosninganna árið 2020, varði ákvarðanir Trump og viðraði hugmyndir sem má rekja til QAnon samsæriskenninga.
Hann á yfir höfði sér ákæru vegna tilraunar til manndráps og árás með banvænu vopni.
