Fyrr­verandi for­seti Banda­ríkjanna, Donald Trump hefur for­dæmt á­rásina á Paul Pelosi eiginmann for­seta Banda­ríkja­þings, Nan­cy Pelosi.

Á­rásar­maður braust inn á heimili Pelosi hjónanna í San Fransisco síðast­liðinn föstu­dag og réðst á hinn 82 ára gamla Paul Pelosi og sló hann í höfuðið með hamri. Pelosi var í kjöl­farið fluttur á spítala. Greint hefur verið frá því í fjöl­miðlum vestan­hafs að á­rásar­maðurinn hafi öskrað „Hvar er Nan­cy,“ þegar hann réðst á eigin­mann hennar.

Nú hefur Donald Trump, fyrrum for­seti Banda­ríkjanna tjáð sig um málið, en hann sagði að á­rásin á Pelosi hafi verið hræði­leg.

„Á­rásin á Paul Pelosi er hræði­leg,“ sagði Trump í við­tali við America­no Media, en hann var að ræða hækkandi glæpa­tíðni í borgum sem eru undir stjórn Demó­krata.

„Sjáðu hvað gerðist í San Fransisco. Sjáðu hvað er að gerast í Chi­cago. Það er miklu verra en Afgan­istan,“ sagði for­setinn fyrr­verandi.

Á­rásar­maðurinn David DePa­pe, sem var hand­tekinn á föstu­dag vegna málsins, hefur birt rasískar at­huga­semdir og færslur á netinu þar sem hann einnig efaðist um niður­stöður for­seta­kosninganna árið 2020, varði á­kvarðanir Trump og viðraði hug­myndir sem má rekja til QA­non sam­særis­kenninga.

Hann á yfir höfði sér á­kæru vegna til­raunar til mann­dráps og árás með ban­vænu vopni.

Trump og Pelosi lenti oft saman þegar hann var forseti Bandaríkjanna.