Donald Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseti, samþykkti í gærkvöld frumvarp þingsins um svokallaðan björgunarpakka vegna kórónuveirufaraldursins. Um er að ræða umfangsmikla löggjöf sem ætlað er að styðja bæði fyrirtæki og einstaklinga í Bandaríkjunum vegna áhrifa faraldursins á efnahaginn í landinu.

Lög­in voru samþykkt með yf­ir­gnæf­andi meiri­hluta í síðustu viku bæði í öld­unga­deild­inni og full­trúa­deild­inni. Trump neitaði hins vegar að samþykkja efna­hags­að­gerðirnar og sagði að­gerða­pakkann vera „til skammar.“ Hann sagði pakkann ekki gera nægi­lega mikið fyrir Banda­ríkja­menn en meðal þess sem kveðið er á um í pakkanum er 600 dala á­vísun til Banda­ríkja­manna, til saman­burðar við 1200 dala á­vísun sem Banda­ríkja­menn fengu í upp­hafi far­aldursins. Trump aftur á móti vill að upp­hæðin verði 2000 dalir.

Samkvæmt BBC er ekki ljóst hvað varð til þess að Trump skipti um skoðun og undirritaði lögin. Hann hefur þó sætt mikilli gagnrýni og þrýsting bæði frá Repúblikönum og Demókrötum síðan hann neitaði að skrifa undir.

Aðgerðapakinn fel­ur meðal annars í sér bein­ar greiðslur til margra Banda­ríkja­manna og fyr­ir­tækja. Auk þess verður fjár­magnið nýtt í verk­efni í þágu at­vinnu­lausra sem misst hafa vinnuna í efnahagsþrengingum síðustu mánaða. Þá þurfa alríkisstofnanir ekki að loka tímabundið vegna skorts á fjármögnun, en hefði Trump ekki skrifað undir hefði hluta þeirra verið lokað á miðnætti í kvöld.