Málflutningur í máli Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, hófst innan öldungadeildar Bandaríkjaþings í gær en Trump er þar ákærður til embættismissis fyrir að hvetja til uppreisnar í tengslum við óeirðirnar við bandaríska þinghúsið þann 6. janúar síðastliðinn.
Donald Trump hefur átt í vandræðum með lögmannateymi sitt en hann þurfti að byrja upp á nýtt fyrr í mánuðinum eftir að fyrsta teymi hans sagði sig frá málinu þar sem ekki náðist sátt um hvernig vörn Trumps skyldi vera. Sjálfur vildi hann að áhersla yrði lögð á meint svindl í kringum forsetakosningarnar í nóvember.
Óskipulagðir lögmenn
Að því er kemur fram í frétt CNN um málið er Trump sagður verulega ósáttur með málflutning lögmanna sinna í gær, þeirra Bruce Castor og David Schoen. Flestir eru sammála um að málflutningur þeirra hafi verið frekar óhnitmiðaður og virtust lögmennirnir óundirbúnir, sem kemur eflaust lítið á óvart í ljósi þess hversu lítinn tíma þeir hafa fengið til að undirbúa sig.
Þó nokkrir þingmenn Repúblikana lýstu því yfir í gærkvöldi að þeir hafi orðið fyrir vonbrigðum vegna málflutnings lögmanna Trumps. Þingmaðurinn Bill Cassidy, sem sjálfur hefur haldið því fram að málið væri ekki í samræmi við stórnarskránna, sagði til að mynda að lögmennirnir hafi verið verulega óskipulagðir.
Here's Republican Sen. Bill Cassidy going in on the performance of Trump's legal team pic.twitter.com/BT0EiPMW1U
— Aaron Rupar (@atrupar) February 10, 2021
Tekist á um stjórnarskrána
Fulltrúadeildarþingmennirnir sem fara fyrir málinu gegn Trump hófu málflutning sinn með myndbandi af óeirðunum en þeir halda því fram að Trump hafi einn borið ábyrgð á aðgerðum stuðningsmanna sinna sem varð til þess að fimm manns létust og miklar skemmdir voru unnar við þinghúsið.
Lögmenn Trumps aftur á móti hófu málflutning sinn með þeim rökum að það væri ekki í samræmi við stjórnarskránna að ákæra almennan borgara til embættismissis en Trump lét af störfum sem forseti þann 20. janúar síðastliðinn.
Aldargömul rök
Fulltrúadeildarþingmaðurinn Joe Neguse, sem er einn þeirra sem fer fyrir málinu gegn Trump, gaf lítið fyrir röksemdafærslu lögmanna og sagði það setja slæmt fordæmi ef málinu væri vísað frá, að forseti geti látið af störfum og þar með forðast afleiðingar gjörða sinna.
Vísað var til þess þegar William Belknap, stríðsmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði af sér skömmu áður en fulltrúadeildin ákærði hann árið 1876 en þrátt fyrir afsögn Belknap var ákveðið að taka málið fyrir innan öldungadeildarinnar. Þá var vísað til máls breska embættismannsins Warren Hastings á átjándu öldinni sem var við það að vera ákærður þegar bandaríska stjórnarskráin var í smíðum.
Bruce Castor, helsti lögmaður Trump, svaraði fulltrúadeildarinnarþingmönnunum og sagði að það sem hafði gerst fyrir svona löngum tíma, og í Englandi, kæmi máli Trumps ekkert við og ef út í það væri farið mætti jafnvel taka Rómarborg sem dæmi. Hinn lögmaður Trumps, David Schoen, bætti litlu við.
Málið heldur áfram
Málflutningur innan deildarinnar mun halda áfram síðar í dag en báðar hliðar hafa 16 klukkustundir til að færa rök fyrir máli sínu. Mögulegt er að málinu ljúki í næstu viku en til að Trump verði sakfelldur þurfa tveir þriðju þingmanna deildarinnar að samþykkja ákærurnar.
TRUMP TRIAL: Trump Lawyer Bruce Castor invokes collapse of Ancient Greece and Rome: “The only entity that stands between the bitter in-fighting that led to the downfall of the Greek republic & the Roman republic and the American republic is the Senate.” https://t.co/JexThLwid5 pic.twitter.com/ZfULPtoKB0
— Forbes (@Forbes) February 9, 2021