Mál­flutningur í máli Donalds Trump, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seta, hófst innan öldunga­deildar Banda­ríkja­þings í gær en Trump er þar á­kærður til em­bættis­missis fyrir að hvetja til upp­reisnar í tengslum við ó­eirðirnar við banda­ríska þing­húsið þann 6. janúar síðast­liðinn.

Donald Trump hefur átt í vand­ræðum með lög­manna­t­eymi sitt en hann þurfti að byrja upp á nýtt fyrr í mánuðinum eftir að fyrsta teymi hans sagði sig frá málinu þar sem ekki náðist sátt um hvernig vörn Trumps skyldi vera. Sjálfur vildi hann að á­hersla yrði lögð á meint svindl í kringum for­seta­kosningarnar í nóvember.

Óskipulagðir lögmenn

Að því er kemur fram í frétt CNN um málið er Trump sagður veru­lega ó­sáttur með mál­flutning lög­manna sinna í gær, þeirra Bruce Ca­stor og David Schoen. Flestir eru sam­mála um að mál­flutningur þeirra hafi verið frekar ó­hnit­miðaður og virtust lög­mennirnir ó­undir­búnir, sem kemur eflaust lítið á óvart í ljósi þess hversu lítinn tíma þeir hafa fengið til að undirbúa sig.

Þó nokkrir þing­menn Repúblikana lýstu því yfir í gær­kvöldi að þeir hafi orðið fyrir von­brigðum vegna mál­flutnings lög­manna Trumps. Þing­maðurinn Bill Cassi­dy, sem sjálfur hefur haldið því fram að málið væri ekki í sam­ræmi við stórnar­skránna, sagði til að mynda að lög­mennirnir hafi verið verulega ó­skipu­lagðir.

Tekist á um stjórnarskrána

Full­trúa­deildar­þing­mennirnir sem fara fyrir málinu gegn Trump hófu mál­flutning sinn með mynd­bandi af ó­eirðunum en þeir halda því fram að Trump hafi einn borið á­byrgð á að­gerðum stuðnings­manna sinna sem varð til þess að fimm manns létust og miklar skemmdir voru unnar við þing­húsið.

Lög­menn Trumps aftur á móti hófu mál­flutning sinn með þeim rökum að það væri ekki í sam­ræmi við stjórnar­skránna að á­kæra al­mennan borgara til em­bættis­missis en Trump lét af störfum sem for­seti þann 20. janúar síðast­liðinn.

Aldargömul rök

Full­trúa­deildar­þing­maðurinn Joe Negu­se, sem er einn þeirra sem fer fyrir málinu gegn Trump, gaf lítið fyrir rök­semda­færslu lög­manna og sagði það setja slæmt for­dæmi ef málinu væri vísað frá, að for­seti geti látið af störfum og þar með forðast af­leiðingar gjörða sinna.

Vísað var til þess þegar Willi­am Belknap, stríðs­mála­ráð­herra Banda­ríkjanna, sagði af sér skömmu áður en full­trúa­deildin á­kærði hann árið 1876 en þrátt fyrir af­sögn Belknap var á­kveðið að taka málið fyrir innan öldunga­deildarinnar. Þá var vísað til máls breska em­bættis­mannsins War­ren Hastings á á­tjándu öldinni sem var við það að vera á­kærður þegar banda­ríska stjórnar­skráin var í smíðum.

Bruce Ca­stor, helsti lög­maður Trump, svaraði full­trúa­deildarinnar­þing­mönnunum og sagði að það sem hafði gerst fyrir svona löngum tíma, og í Eng­landi, kæmi máli Trumps ekkert við og ef út í það væri farið mætti jafnvel taka Rómarborg sem dæmi. Hinn lögmaður Trumps, David Schoen, bætti litlu við.

Málið heldur áfram

Mál­flutningur innan deildarinnar mun halda á­fram síðar í dag en báðar hliðar hafa 16 klukku­stundir til að færa rök fyrir máli sínu. Mögu­legt er að málinu ljúki í næstu viku en til að Trump verði sak­felldur þurfa tveir þriðju þing­manna deildarinnar að sam­þykkja á­kærurnar.