Donald Trump fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seti fyrir­gefur Benja­min Netanyahu, fyrr­verandi for­sætis­ráð­herra og eitt sinn hans helsta banda­manns, ekki tíst eftir for­seta­kosningarnar í Banda­ríkjunum á síðasta ári.

Í við­tali við ísraelska blaða­manninn Barak Ravid í til­efni nýrra bókar blaðamannsins um friðar­ferlið í Mið­austur­löndum, Trump's peace: The Abra­ham Accords and the Reshaping of the Midd­le East, hjólaði hann í Netanyahu og sparaði ekki stóru orðin.

„Fyrstur til að óska [Joe Biden] til hamingju var Bibi [Benja­min] Netanyahu, maður sem ég gerði meira fyrir en nokkurn annan sem ég átti í sam­skiptum við...Bibi hefði átt að þegja. Hann hefur gert hræði­leg mis­tök. Hann gerði þetta mjög snemma. Fyrr en aðrir. Ég hef ekki talað við hann síðan. Hann má fokka sér.“

Það er þó ekki rétt hjá Trump að Netanyahu hafi verið fyrsti þjóðar­leið­toginn til að óska Biden til hamingju með sigurinn í for­seta­kosningunum - sigur sem Trump hefur aldrei sætt sig við. Netanyahu sendi sömu­leiðis kveðju til Trump þar sem hann þakkaði honum fyrir gott sam­starf.

„Enginn gerði meira fyrir Bibi. Ég kunni vel við Bibi. Ég kann enn vel við Bibi. En ég kann einnig vel við tryggð“, sagði Trump enn fremur í við­talinu.