Donald Trump, Banda­ríkja­for­seti, til­kynnti á Twitter nú síð­degis að hann hefði beðið þjóðar­öryggis­ráð­gjafann John Bol­ton að segja af sér. Frá þessu er greint á öllum helstu er­lendum miðlum nú síð­degis. Sagði hann á­stæðuna mega rekja til þess að hann hafi í­trekað verið ráð­gjafa sínum ó­sam­mála.

„Ég lét John Bol­ton vita í gær­kvöldi að þjónustu hans væri ekki lengur óskað í Hvíta húsinu. Ég var mjög ó­sam­mála mjög mörgum til­lögum frá honum, og það á líka við um aðra í ríkis­stjórninni,“ skrifaði Trump í fyrsta tístinu.

„Því bað ég John að skila inn af­sagnar­bréfi, sem ég fékk í hendurnar í morgun. Ég þakka John inni­lega fyrir þjónustu sína. Ég mun út­nefna nýjan þjóðar­öryggis­ráð­gjafa í næstu viku,“ skrifaði for­setinn svo.

Bol­ton tísti raunar svo sjálfur á eftir for­setanum um málið og sagðist hafa boðist til þess að segja upp í gær­kvöldi. For­setinn hafi beðið hann um að ræða málið við sig á morgun, það er, í dag.

CNN greindi frá því í síðustu vikuað mikillar spennu gætti í þjóðar­öryggis­teymi Trump. Spennan hefði raunar orðið til þess að mikillar ó­vildar gæti á milli þjóðar­öryggis­ráðsins og ríkis­stjórnarinnar.

Bol­ton tók við stöðuni af hers­höfðingjanum HR McMa­ster ekki síst vegna her­skárra skoðana um sam­skipti Banda­ríkjanna og Íran. Studdi hann meðal annars á­kvörðun Trump um að segja Banda­ríkin úr kjarn­orku­samningi vestur­veldanna við Írani en svo virðist vera sem hann hafi verið ó­sam­mála for­setanum í helstu at­riðum um mál­efni Afgan­istan og Norður-Kóreu.