Húfan með slagorði Donald Trump „Make America Great Again“ lætur Kanye West, eða Ye, líða eins og Superman. Þetta er á meðal þess sem rapparinn sagði í ótrúlegri tíu mínútna framsöguræðu sem hann hélt fyrir framan forsetann og aragrúa fjölmiðlamanna.

Ye hefur ekki farið leynt með aðdáun sína á forsetanum en þeir snæddu saman hádegisverð eftir fjölmiðlafundinn í dag.

Rapparinn óð á súðum á fundinum með Trump. Hann ræddi meðal annars um samfélagsleg málefni, andlega heilsu og aðdáun sína á Trump.

Ye sagðist vera undir þrýstingi að ganga ekki um með derhúfuna og sagði að margir litu svo á að allir blökkumenn væru demókratar. „En þessi húfa veitir mér kraft,“ sagði Ye, eins og hann vill láta kalla sig um þessar mundir. Við á Fréttablaðinu storkum því ekki.

„Þetta var eitthvað,“ sagði Trump orðlaus eftir einræðu Ye, sem lét ekki staðar numið heldur gekk upp að forsetanum og faðmaði hann að ræðuhöldunum loknum. „Þetta var mjög indælt. Þetta kom frá hjartanu,“ sagði Trump þá um faðmlagið.

Þeir Ye snæddu síðan steiktan kjúkling.