Fanndís Birna Logadóttir
fanndis@frettabladid.is
Sunnudagur 15. desember 2019
08.00 GMT

Umræðan sem á sér nú stað um meint embættisbrot Bandaríkjaforseta er margslungin og verulega flókin á köflum og því ekki nema von að fólk skilji ekki alveg hvað er að gerast. Flestir vita þó að það sem á sér núna stað í Bandaríkjunum er sögulegur viðburður og gæti haft áhrif á valdatíð Trumps. Skrifað hefur verið um málið nánast alls staðar og fólk keppist við að mynda sér skoðun á málinu. Óháð því hvaða skoðun maður hefur á Trump eru nokkrir hlutir sem eru mikilvægir í málinu og nauðsynlegt að gera þeim skil.

Donald J. Trump, 45. forseti Bandaríkjanna, gæti orðið þriðji forsetinn í sögu Bandaríkjanna til að vera ákærður til embættismissis.
Fréttablaðið/Getty

Hvað er Trump sakaður um?

Í grunninn snýst hið svokallaða „Úkraínuhneyksli“ um það að Trump setti skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð til Úkraínu, í formi 391 milljónar dollara styrks, gegn því að yfirvöld í Úkraínu myndu rannsaka fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, Joe Biden, og son hans, Hunter Biden, sem sat í stjórn orkufyrirtækisins Burisma í Úkraínu. Talið er að með þessu hafi Trump verið að beita svindli vegna komandi kosninga en Joe Biden er mögulegur forsetaframbjóðandi Demókrata í kosningunum á næsta ári.

Joe Biden var einn helsti talsmaður þess að ríkissaksóknari Úkraínu, Viktor Shokin, yrði rekinn en Shokin hafði þá haft Burisma til rannsóknar vegna meintrar spillingar. Biden hreykti sér af því að hafa hótað að ef Shokin yrði ekki rekinn myndi Úkraína ekki fá lán upp á einn milljarð dollara og var Shokin rekinn í mars 2016. Trump hefur ítrekað bent á þetta en rök Bidens fyrir því að Shokin yrði rekinn voru þau að hann væri ekki að berjast nægilega mikið gegn spillingu. Rannsókn á Burisma var síðan lögð niður í september árið 2016 þar sem ekki voru næg sönnunargögn til að sýna fram á spillingu.

Joe Biden (hægri) og Hunter Biden (vinstri).
Fréttablaðið/Getty

Hvað þýðir það að kæra einhvern til embættismissis?

Það að kæra forseta til embættismissis (e. impeachment) getur verið langt og strembið ferli en það er eina leiðin til að koma forseta frá völdum sem ekki vill sjálfur segja af sér. Hægt er að kæra alla opinbera embættismenn til embættismissis, til að mynda dómara, ráðherra og forseta, og hafa nokkrir verið sviptir embætti vegna brota í embætti. Flestir þeirra hafa þó verið dómarar og hefur forseti Bandaríkjanna aldrei verið sviptur embætti.

Ákæran ein og sér er ekki nóg til að koma forseta úr embætti heldur þarf að dæma í málinu og sér öldungadeild þingsins um það. Meðferð málsins er að mörgu leyti svipuð meðferð á dómsmáli en samt er um tvennt ólíkt að ræða þar sem embættisbrot eru ekki endilega glæpur. Til þess að koma forseta frá völdum þarf að ákæra hann og dæma fyrir „landráð, mútuþægni, eða aðra alvarlega glæpi og afbrot“, líkt og kemur fram í annarri grein bandarísku stjórnarskrárinnar en mjög óljóst er hvað telst vera alvarlegur glæpur eða afbrot. Sé forsetinn fundinn sekur er hann sviptur embætti og getur átt von á ákæru innan dómsvaldsins ef brot hans varða almenn lög.

Áður en ferlið fór af stað með Trump höfðu þrír forsetar verið sakaðir um embættisbrot og rannsókn á þeim brotum verið hafin:

  1. Andrew Johnson, sautjándi forseti Bandaríkjanna (1865-1869), var sakaður um að hafa brotið lög sem sögðu að ekki mætti víkja embættismanni frá störfum án samþykkis öldungadeildarinnar (e. Tenure of Office Act). Eitt atkvæði vantaði til að öldungadeildin sakfelldi Johnson, sem var sýknaður, en lögin voru lögð af tveimur áratugum síðar, þar sem talið var að þau væru í andstöðu við stjórnarskrána.
  2. Richard Nixon, 37. forseti Bandaríkjanna (1969-1973), var sakaður um að hindra framgang réttvísinnar (e. obstruction of justice), misbeitingu á valdi (e. abuse of power) og að ljúga að þjóðþinginu (e. contempt of congress) vegna Watergate-hneykslisins svokallaða. Nixon sagði af sér áður en fulltrúadeildin gat ákært hann formlega en líklegast hefði Nixon verið sakfelldur ef hann hefði ekki sagt af sér.
  3. Bill Clinton, 42. forseti Bandaríkjanna (1993-2001), var sakaður um að hindra framgang réttvísinnar og bera ljúgvitni (e. perjury) í tengslum við ásakanir um kynferðislega áreitni og samband sitt við Monicu Lewinsky, sem var þá lærlingur í Hvíta húsinu. Clinton var formlega ákærður en öldungadeild þingsins sýknaði hann.
Frá vinstri til hægri: Andrew Johnson, Richard Nixon, og Bill Clinton. Johnson og Clinton voru formlega ákærðir (e. impeached) en Nixon sagði af sér áður en hann var ákærður.
Fréttablaðið/Getty

Hvaða aðilar eru mikilvægir í málinu?

Þrátt fyrir að rannsóknin snúist um meint embættisbrot Trumps í tengslum við rannsókn á Biden-feðgunum eru fjölmargir aðrir sem koma við sögu. Alls gáfu 18 manns skýrslu í tengslum við rannsóknina og af þeim voru ellefu sem báru vitni fyrir dómsmálanefnd fulltrúadeildarinnar. Auk þeirra sem báru vitni voru fjölmargir embættismenn innan Hvíta hússins sem neituðu að mæta til skýrslutöku.

Frá vinstri til hægri: Volódimír Zelenskíj, Rudy Giuliani og John Bolton.
Fréttablaðið/Getty

Nokkrir aðilar koma oftar við sögu en aðrir og er mikilvægt að gera grein fyrir þeim í tengslum við málið:

Volódimír Zelenskíj: Vann forsetakosningar í Úkraínu í apríl 2019 og tók við embættinu í maí sama ár. Í alræmdu símtali milli hans og Trumps þann 25. júlí 2019 óskaði Trump eftir því að Zelenskíj gerði honum greiða. Í símtalinu ýjaði Trump að því að greiðinn fæli í sér rannsókn á Biden-feðgunum en það kom ekki beint fram. Yfirvöld í Úkraínu segja aldrei neina rannsókn hafa farið í gang en af símtalinu að dæma virtist Zelenskíj vera opinn fyrir slíkri rannsókn.

Rudy Giuliani: Lögfræðingur Trumps frá því í apríl 2018. Giuliani hefur verið einn helsti talsmaður rannsóknar gegn Biden-feðgunum en hann hafði átt í miklum samskiptum við saksóknara í Úkraínu. Hvaða hlutverk Giuliani spilaði í raun í málinu er enn óljóst en að sögn margra vitna átti Giuliani lykilþátt í Úkraínuhneykslinu þrátt fyrir að vera almennur borgari. Giuliani hefur neitað að leggja fram upplýsingar sem tengjast rannsókninni þrátt fyrir að hafa verið stefnt.

John Bolton: Þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna frá apríl 2018 til september 2019. Óvisst er hvort Bolton hafi hætt sjálfur eða hvort Trump hafi rekið hann en Bolton var verulega gagnrýninn á utanríkisstefnu forsetans. Bolton var boðaður í skýrslutöku 7. nóvember en hann tilkynnti að hann myndi ekki mæta nema honum yrði birt stefna. Bolton hefur ekki enn borið vitni um meint embættisbrot Trumps þrátt fyrir að hann geti líklegast gefið mikilvægar upplýsingar um samband Bandaríkjanna við Úkraínu.

Frá vinstri til hægri: William Taylor, Gordon Sondland og Kurt Volker.
Fréttablaðið/Getty

Gordon Sondland: Sendiherra Bandaríkjanna hjá Evrópusambandinu frá júlí 2018. Sondland mætti til skýrslutöku um meint embættisbrot Trumps 17. október og bar síðan vitni 20. nóvember. Áður en Sondland var yfirheyrður af þingnefndum fulltrúadeildarinnar var hann kallaður„maður Trumps“ og neitaði því ávalt að Trump hafi sett skilyrði fyrir fjárhagsaðstoðinni. Þegar Sondland bar vitni sagði hann aftur á móti að Trump hafi beðið hann um að setja þrýsting á yfirvöld í Úkraínu til þess að láta þau rannsaka Biden-feðgana. Að sögn Sondlands vissu flestir innan Hvíta hússins hvað Trump hafði gert, þar á meðal Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. „Allir vissu af þessu. Það voru engin leyndarmál.“

William "Bill" Taylor: Starfandi sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu frá því í júní 2019. Taylor mætti til skýrslutöku um meint embættisbrot Trumps 22. október og bar síðan vitni 20. nóvember. Vitnisburður Taylors var að mörgu leyti svipaður vitnisburði Sondlands en Taylor segir það vera skýrt að Trump hafi sett skilyrði fyrir fjárhagsaðstoðinni til Úkraínu. Að sögn Taylors áttu Trump og Sondland símtal daginn eftir að Trump hringdi í Zelenskíj í júlí þar sem Trump sprurði Sondland út í „stöðuna á rann­sókn­un­um.“

Kurt Volker: Sérstakur erindreki Bandaríkjanna í málefnum Úkraínu frá júlí 2017 til september 2019. Volker mætti til skýrslutöku um meint embættisbrot Trumps 3. október og bar síðan vitni 19. nóvember. Volker kom því til skila til Zelenskíj að Trump myndi ekki veita Úkraínu fjárhagsaðstoðina ef yfirvöld í Úkraínu gæfu ekki út yfirlýsingu þar sem tilkynnt væri að Biden-feðgarnir væru til rannsóknar. Volker hvatti þó úkraínska forsetan og yfirvöld til að gefa ekki út slíka yfirlýsingu.

Frá vinstri til hægri: Alexander Vindman, Fiona Hill og Laura Cooper.
Fréttablaðið/Getty

Alexander Vindman: Undirofursti í bandaríska hernum frá september 2015 og sérfræðingur þjóðaröryggisráðs í málefnum Úkraínu frá júlí 2018. Vindman mætti til skýrslutöku um meint embættisbrot Trumps 29. október og bar síðan vitni 19. nóvember. Líkt og önnur vitni tók Vindman undir þá fullyrðingu að Trump hafi sett skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð til Úkraínu. Að sögn Vindmans var hann óánægður með ákvörðun Trumps þegar hann komst að henni og lýsti hann yfir áhyggjum sínum innan Hvíta hússins.

Fiona Hill: Ráðgjafi þjóðaröryggisráðs Bandaríkjastjórnar í málefnum Rússlands og Evrópu frá apríl 2017 til júlí 2019. Hill mætti til skýrslutöku um meint embættisbrot Trumps 14. október og bar síðan vitni 21. nóvember. Vitnisburður Hill snertir að mestu leiti fundi sem fóru fram innan Hvíta hússins þar sem embættismenn lýstu yfir áhyggjum sínum varðandi samband Bandaríkjanna við Úkraínu. Að sögn Hill er það augljóst að Trump hafi sett skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð.

Laura Cooper: Starfsmaður varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna og stjórnandi stefnu Bandaríkjanna í málefnum Úkraínu. Cooper mætti til skýrslutöku um meint embættisbrot Trumps 23. október og bar síðan vitni 20. nóvember. Í vitnisburði sínum lýsti Cooper því auk þess sem að fjárhagsaðstoð til Úkraínu væri nauðsynleg þá myndi slík aðstoð einnig þjóna hagsmunum Bandaríkjanna. Ákvörðun um að setja hömlur á fjárhagsaðstoð væri því einungis til þess að þjóna persónulegum hagsmunum forsetans.

Fjölmargir aðilar báru vitni vegna málsins.
Fréttablaðið/Getty

Hvaða atburðir eru mikilvægastir í málinu?

Apríl til júlí - Hjólin fara að snúast

Strax eftir að grínistinn Volódimír Zelenskíj vinnur forsetakosningarnar í Úkraínu þann 21. apríl hringir Trump í Zelenskíj til að óska honum til hamingju. Eftir það símtal virtust hjólin fara að snúast. Trump og Giuliani reyndu í kjölfarið að fá Úkraínumenn til að rannsaka Biden-feðgana og hafa þeir aðilar sem báru vitni í málinu staðfest það.

25. júlí - Trump hringir í Zelenskiy og biður hann um greiða

Þrátt fyrir að ýmislegt hafi átt sér stað áður en forsetarnir ræddu málin, þá er símtalið í raun upphafspunktur Úkraínuhneykslisins. Eftir að símtalið var birt þá kom í ljós að Trump hafi beðið forseta Úkraínu um greiða og ýjað að því að greiðinn fæli í sér rannsókn á mögulegum forsetaframbjóðanda Demókrata, Joe Biden, og son hans, Hunter Biden. Næsta dag hélt Trump aftur 391 milljón dollara í hernaðaraðstoð til Úkraínu án þess að gefa neinar útskýringar.

Afrit af símtalinu var birt þann 25. september.

12. ágúst - Kvörtun uppljóstrarans þar sem símtalsins er getið

Kvörtun uppljóstarans barst 12. ágúst en hún var ekki birt opinberlega fyrr en 26. september. Enginn veit hver uppljóstrarinn er í raun og veru en talið er að hann hafi starfað hjá leyniþjónustu Bandaríkjanna. Þá heldur uppljóstrarinn því fram í kvörtun sinni að hann starfi ekki innan Hvíta hússins. Uppljóstrarinn viðurkennir að hann hafi ekki verið beint vitni að því sem hann greinir frá í kvörtuninni heldur hafi fjölmargir embættismenn komið upplýsingunum áleiðis til hans. Meðfram rannsókninni á embættisbrotum Trumps hafa ýmsir haldið því fram að alla vega einn annar uppljóstrari hafi stigið fram en það hefur ekki verið staðfest.

28. ágúst - Fjölmiðlar, þingmenn, og almenningur komast að því að hömlur hafi verið settar á fjárhagsaðstoðina

Politico birtir grein þann 28. ágúst þar sem upplýsingar um fjárhagsaðstoðina eru settar fram. Eftir mikinn þrýsting frá embættismönnum, og þegar forsetanum er orðið ljóst að rannsókn sé yfirvofandi, er hömlum á fjárhagsaðstoðinni aflétt þann 11. september.

24. september - Pelosi vill að fulltrúardeildin hefji rannsókn.

Eftir að samskipti Bandaríkjaforseta við Úkraínu komu í ljós tilkynnti Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, að rannsókn fari af stað í málinu. „Að­gerðir for­seta­em­bættis Trumps sýndu fram á sví­virði­legan veru­leikann, for­setinn sveik em­bættis­eið sinn, sveik þjóðar­öryggi okkar og sveik rétt­mæti kosninga okkar,“ sagði Pelosi þegar hún tilkynnti rannsóknina.

Lok september til nóvember - Fjölmargir embættismenn bera vitni

Átján aðilar sem tengdust málefnum Bandaríkjanna í Úkraínu á einn eða annan hátt báru vitni fyrir luktum dyrum. Vitnisburðir þeirra voru gerðir opinberir í nóvember.

Joseph Maguire (26. september), Kurt Volker (3. október), Philip Reeker (26. október), Marie L. Yovanovitch (11. október), Fiona Hill (14. október), George P. Kent (15. október), P. Michael McKinley (16. október), Gordon Sondland (17. október), William B. Taylor (22. október), Laura K. Cooper (23. október), Alexander S. Vindman (29. október), Catherine M. Croft (30. október), Christopher Anderson (30. október), Timothy Morrison (31. október), David M. Hale (6. nóvember), Jennifer Williams (7. nóvember), David A. Holmes (15. nóvember), Mark Sandy (16. nóvember).

8. október - Hvíta húsið lýsir því yfir að þeir muni ekki taka þátt í rannsókninni

31. október - Fulltrúardeildin hefur formlega rannsókn á embættisbrotum Trumps

Eftir að ríkistjórn Trump gagnrýndi rannsókn fulltrúadeildarinnar, og sögðu að hún væri ólögmæt þar sem fulltrúadeildin í heild hafi ekki kosið um hana, tilkynnti Pelosi að atkvæðagreiðsla færi fram innan fulltrúadeildarinnar. Alls voru 232 þing­menn innan fulltrúadeildarinnar sem voru samþykkir því að formleg rannsókn á embættisbrotum Trumps yrði sett fram en 196 voru því and­snúnir. Allir þeir sem samþykktu rannsóknina voru demókratar en þó vakti athygli að tveir þingmenn Demókrata kusu á móti rannsókninni, auk allra þingmanna Repúblikana.

13. nóvember til 21. nóvember - Lykilaðilar bera opinberlega vitni hjá þingnefndum fulltrúardeildarinnar

Tólf aðilar bera aftur vitni fyrir þingnefndir fulltrúadeildarinnar en í þetta sinn er ferlið opið almenningi. Leyniþjónustunefnd fulltrúadeildarinnar (e. House Committee on Intelligence) gefur í kjölfarið út skýrslu 3. desember þar sem fram kemur að Trump hafi „kastað rýrð á þjóðaröryggi“ Bandaríkjanna. Talsmaður Hvíta hússins sagði aftur á móti að skýrslan endurspeglaði „ekkert annað en þeirra eigin gremju.“ Stuttu eftir að skýrslan kom út báru fjórir prófessorar sem sérhæfðu sig í málefnum stjórnarskránnar vitni en þrír þeirra töldu að um væri að ræða brot sem hægt væri að kæra forsetann fyrir. Einn þeirra taldi að Trump hafi framið embættisbrot en það væri ekki nóg til að ákæra hann.

Þeir sem báru vitni:

George P. Kent (13. nóvember), William B. Taylor (13. nóvember) Marie L.Yovanovitch (15. nóvember), Jennifer Williams (19. nóvember), Alexander S. Vindman (19. nóvember), Kurt Volker (19. nóvember), Timothy Morrison (19. nóvember), Gordon Sondland (20. nóvember), Laura K. Cooper (20. nóvember), David M. Hale (20. nóvember), Fiona Hill (21. nóvember), David A. Holmes (21. nóvember).

Prófessorarnir sem báru vitni 4. desember:

Noah Feldman (prófessor hjá Harvard), Michael Gerhardt (prófessor í háskólanum í Norður Karólínu), Pamela S. Karlan (prófessor hjá Stanford) og Jonathan Turley (prófessor í George Washington háskólanum).

10. desember - Demókratar kynna ákærur á hendur Trump

Eftir að Nancy Pelosi tilkynnti vikunni áður að þingnefndir fulltrúadeildarinnar myndu setja saman ákærur kynntu Demókratar tvær ákærur til embættismissis á hendur Trump; misbeitingu á valdi og að hindra framgang þingsins en athygli vakti að hann yrði ekki ákærður fyrir að hindra framgang réttvísarinnar. Að sögn Demókrata var ákveðið að kæra Trump einungis fyrir þau brot sem líklegt væri að hann yrði sakfelldur fyrir þannig að ekki væri hægt að grafa undan ákærunum.

Hvað gerist næst?

Búist er við að ákærurnar verði lagðar fyrir fulltrúadeildina í heild sinni bráðlega. Ef meirihluti fulltrúadeildarinnar samþykkir ákærurnar, sem er talið líklegt þar sem Demókratar eru í meirihluta þar, verður Trump formlega ákærður (e. impeached). Þaðan fer málið til öldungadeildarinnar en Demókratar vonast eftir að það muni gerast í upphafi næsta árs. Aukinn meirihluta, 67 þingmenn, þarf innan öldungadeildarinnar til að dæma forsetann og svipta hann embætti. Verði hann sviptur embætti sínu mun varaforsetinn, Mike Pence, taka við sem forseti.

Þar sem Repúblikanar eru í meirihluta í öldungadeildinni verður að teljast ólíklegt að Trump verði sviptur embætti sínu og jafnvel gætu Repúblikanar vísað málinu frá áður en það hefst. Litlar sem engar reglur gilda um meðferð máls innan öldungardeildarinnar, enda kemur sjaldan fyrir að forsetar séu ákærðir til embættismissis. Allt er þó mögulegt og ekki hægt að alhæfa um neitt á þessu stigi máls, aðeins tíminn mun leiða það í ljós hver framtíð Trumps verður.

Öll skjöl sem tengjast málinu má finna á vef leyniþjónustunefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og á vef JustSecurity.org .

Athugasemdir