For­seti Banda­ríkjanna, Donald Trump, hitti í nótt, leið­toga Norður-Kóreu, Kim Jong Un á landa­mærum Suður- og Norður Kóreu, á svæði sem er sér­stakt friðar­svæði á milli landanna tveggja. Þar tókust þeir í hendur og tjáðu báðir óskir sínar um frið.

Leið­togarnir tveir voru að hittast í þriðja sinn á einu ári. Vonir standa til að þeir haldi á­fram við­ræðum um af­kjarn­orku­væðingu Kóreu­skagans.

Trump fór stutt­lega af friðar­svæðinu og yfir landa­mærin inn í Norður-Kóreu og varð þar með fyrsti for­seti Banda­ríkjanna til að stíga inn í landið. Stuttu síðar komu leið­togarnir tveir svo saman á land­svæði Suður-Kóreu.

„Þetta er frá­bær dagur fyrir heiminn,“ sagði Trump þar sem hann stóð með Kim innan hóps ljós­myndara, að­stoðar­manna og líf­varða.

Í um­fjöllun Reu­ters um fund þeirra segir að Kim hafi litið út fyrir að vera af­slappaður og hamingju­samur á meðan hann ræddi við Trump. Kim sagði það merki um vilja til að vinna saman að nýrri fram­tíð og að það yrði mikill heiður ef að Trump myndi heim­sækja höfuð­borg hans, Pyongy­ang.

Leiðtogarnir tveir áður en þeir stigu inn í Norður-Kóreu.
Fréttablaðið/AFP

Hittust á hlutlausu svæði

Trump kom til Suður-Kóreu seint í gær og átti fund með for­seta Suður-Kóreu, Moon Jae-in, eftir að hafa tekið þátt í G20 fundi í Osaka í Japan. Þar, skyndi­lega, sendi hann Kim boð um að hitta sig, sem Kim þáði.

Þeir hittust á sam­eigin­legu öryggis­svæði á milli Suður- og Norður-Kóreu sem er vaktað af her­mönnum frá báðum löndum. Eftir að Kim og Trump tókust í hendur slést Moon í hóp með þeim.

Trump og Kim hittust fyrst í Singa­por­e í júní í fyrra. Þar sam­þykktu þeir að bæta sam­skiptin og vinna að af­kjarn­orku­væðingu Kóreu­skagans. En síðan þá hefur lítið gerst.

Í febrúar á þessu ári hittust þeir svo í annað sinn til að halda við­ræðum á­fram. Þar slitnaði upp úr við­ræðum þegar Banda­ríkin kröfðust þess að Norður-Kóreu læti af hendi kjarn­orku­vopn sín og Norður-Kórea krafðist þess að refsi­að­gerðum yrði af­létt.