Donald Trump, sitjandi Banda­ríkja­for­seti, hefur neitað að sam­þykkja efna­hags­að­gerðir gegn CO­VID-19 sem bæði full­trúa- og öldunga­deild Banda­ríkja­þings sam­þykktu fyrr í vikunni en Trump sagði að­gerða­pakkann vera „til skammar.“ Gert var ráð fyrir að Trump myndi sam­þykkja pakkann án tafar.

Í mynd­bandi sem Trump birti á Twitter síðu sinni í gær­kvöldi sagði Trump að ýmis­legt sem kveðið er á um í pakkanum sé „eyðslu­samt,“ en hann sagði með­limi þingsins hafa haft sér­hags­muni að leiðar­ljósi við gerð pakkans. Þar kenndi hann Demó­krötum aðal­lega um en sátt hefur hingað til ekki náðst innan þingsins um efna­hags­að­gerðir.

„Þetta eiga að vera að­gerðir gegn Co­vid, en þær hafa nánast ekkert að gera með Co­vid,“ sagði Trump en um er að ræða 900 milljarða Banda­ríkja­dala að­gerða­pakka gegn CO­VID-19 og 1,3 billjóna dala efna­hags­pakka til þess að styðja við ríkis­rekstur næstu níu mánuði.

Pakkinn geri ekki nóg fyrir Bandaríkjamenn

Trump sagði pakkann ekki gera nægi­lega mikið fyrir Banda­ríkja­menn en meðal þess sem kveðið er á um í pakkanum er 600 dala á­vísun til Banda­ríkja­manna, til saman­burðar við 1200 dala á­vísun sem Banda­ríkja­menn fengu í upp­hafi far­aldursins. Trump aftur á móti vill að upp­hæðin verði 2000 dalir.

Þrátt fyrir yfir­lýsingar Trumps hefur hann ekki enn fengið að sjá greinar­gerð pakkans en um er að ræða hátt í sex þúsund blað­síðna skjal. Því liggur ekki fyrir hvort Trump muni skipta um skoðun en tíminn er naumur þar sem nú­verandi að­gerðir renna út um mánaða­mótin.

Ef að­gerða­pakkinn verður ekki sam­þykktur fer allur ríkis­rekstur í upp­nám og munu Banda­ríkja­menn þurfa að bíða enn lengur eftir stuðningi. Trump sagði að þingið yrði að breyta pakkanum, annars myndi það lenda á næstu ríkis­stjórn en Joe Biden tekur við em­bætti for­seta 20. janúar 2021.