Donald Trump, sitjandi Bandaríkjaforseti, hefur neitað að samþykkja efnahagsaðgerðir gegn COVID-19 sem bæði fulltrúa- og öldungadeild Bandaríkjaþings samþykktu fyrr í vikunni en Trump sagði aðgerðapakkann vera „til skammar.“ Gert var ráð fyrir að Trump myndi samþykkja pakkann án tafar.
Í myndbandi sem Trump birti á Twitter síðu sinni í gærkvöldi sagði Trump að ýmislegt sem kveðið er á um í pakkanum sé „eyðslusamt,“ en hann sagði meðlimi þingsins hafa haft sérhagsmuni að leiðarljósi við gerð pakkans. Þar kenndi hann Demókrötum aðallega um en sátt hefur hingað til ekki náðst innan þingsins um efnahagsaðgerðir.
„Þetta eiga að vera aðgerðir gegn Covid, en þær hafa nánast ekkert að gera með Covid,“ sagði Trump en um er að ræða 900 milljarða Bandaríkjadala aðgerðapakka gegn COVID-19 og 1,3 billjóna dala efnahagspakka til þess að styðja við ríkisrekstur næstu níu mánuði.
Pakkinn geri ekki nóg fyrir Bandaríkjamenn
Trump sagði pakkann ekki gera nægilega mikið fyrir Bandaríkjamenn en meðal þess sem kveðið er á um í pakkanum er 600 dala ávísun til Bandaríkjamanna, til samanburðar við 1200 dala ávísun sem Bandaríkjamenn fengu í upphafi faraldursins. Trump aftur á móti vill að upphæðin verði 2000 dalir.
Þrátt fyrir yfirlýsingar Trumps hefur hann ekki enn fengið að sjá greinargerð pakkans en um er að ræða hátt í sex þúsund blaðsíðna skjal. Því liggur ekki fyrir hvort Trump muni skipta um skoðun en tíminn er naumur þar sem núverandi aðgerðir renna út um mánaðamótin.
Ef aðgerðapakkinn verður ekki samþykktur fer allur ríkisrekstur í uppnám og munu Bandaríkjamenn þurfa að bíða enn lengur eftir stuðningi. Trump sagði að þingið yrði að breyta pakkanum, annars myndi það lenda á næstu ríkisstjórn en Joe Biden tekur við embætti forseta 20. janúar 2021.
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) December 23, 2020