Donald Trump beitti fyrir sér fimmta við­auka stjórnar­skrárinnar og svaraði ekki spurningum undir eið en hann var í dag kallaður til yfir­heyrslu hjá ríkis­sak­sóknara New York. Yfir­heyrslan snýst um rann­sókn sak­sóknarans á við­skipta­háttum Trumps.

Trump mætti til ríkis­sak­sóknarans klukkan níu á staðar­tíma og rúm­lega klukku­stund síðar til­kynnti hann að hann hefði „neitað að svara spurningum sam­kvæmt þeim réttindum sem hverjum og einum ríkis­borgara er veitt sam­kvæmt stjórnar­skrá Banda­ríkjanna.“

Rann­sókn á við­skipta­háttum Trump felur í sér á­sakanir um að fyrir­tæki Trump, Trump Organization, beitti fölskum eða villandi út­tektum á eignum sínum, eins og golf­völlum og og skýja­kljúfum í því mark­miði að villa fyrir lán­veit­endum og skatt­yfir­völdum.

Fyrir­tæki Trump laug til að mynda að því hver stærð í­búðar Trump í Trump-turninum væri, fyrir­tækið sagði að í­búðin væri þre­falt stærri en hún er í raun og veru. Það jók virði í­búðarinnar um 200 milljónir banda­ríkja­dollara.

„Ég spurði einu sinni: „Ef þú ert sak­laus, hvers vegna ertu að beita fimmta við­auka stjórnar­skrárinnar?“ Núna veit ég svarið við því,“ sagði Trump í yfir­lýsingu.

„Þegar fjöl­skyldan þín, fyrir­tæki þitt og allt fólkið í kringum þig er orðið að skot­marki í pólitískum norna­veiðum sem studdar eru af lög­fræðingum, sak­sóknara og fals­frétta­miðlum, þá hefur þú ekkert val,“ bætti hann við.

Á­kvörðun hans að neita að svara spurningum ríkis­sak­sóknara kemur í skugga hús­leitar sem fram­kvæmd var á heimili hans í Mar-a-Lago í Palm Beach, Flórída. Hús­leitin er þáttur í rann­sókn um að Trump hafi flutt trúnaðar­gögn frá Hvíta húsinu til heimilis síns, gögn sem gætu jafn vel varðað þjóðar­öryggis­mál.

Yfir­heyrslan átti upp­haf­lega að fara fram í síðasta mánuði en var frestað vegna dauða I­vönu Trump, fyrrum eigin­konu Donalds Trump.