Donald Trump Banda­ríkja­for­seti hefur á­kveðið að til­nefna Amy Con­ey Bar­rett, dómara við á­frýjunar­dóm­stól Chi­cago, í Hæsta­rétt Banda­ríkjanna en þetta hafa flestir fjöl­miðlar vestan­hafs eftir heimildar­mönnum sínum. Trump kemur til með að til­kynna til­nefninguna í Hvíta húsinu á morgun.

Að því er kemur fram í frétt New York Times hitti Trump Bar­rett í Hvíta húsinu fyrr í vikunni en hún er vin­sæl meðal í­halds­manna þar sem hún er á móti fóstur­eyðingum og mikill tals­maður skot­vopna­réttinda. Þá hefur hún lýst því yfir að hún vilji breyta heil­brigðis­kerfinu í Banda­ríkjunum og hefur henni verið lýst sem kven­kyns Antonin Scali­a, hæsta­réttar­dómarinn sem lést árið 2016.

Vilja ganga frá tilnefningunni fyrir kosningar

Líkt og áður hefur verið greint frá var til­kynnt um and­lát Ruth Bader Gins­burg síðast­liðinn föstu­dag en hún var einn af níu dómurum við réttinn. Trump sagðist vilja bíða með að til­nefna nýjan dómara við réttinn þar til eftir að minningar­at­höfn Gins­burg hafði farið fram en hún fór fram í gær.

Mikið hefur verið tekist á um til­nefninguna en Mitch McConnell, leið­togi Repúblikana innan öldunga­deild Banda­ríkja­þings, lýsti því yfir stuttu eftir and­lát Gins­burg að öldunga­deildin, þar sem Repúblikanar eru í meiri­hluta, myndi sam­þykkja til­nefninguna áður en kosið yrði um for­seta Banda­ríkjanna.

Gæti haft gífurleg áhrif á ýmis mál

Ef öldunga­deildin sam­þykkir til­nefningu Trump verða sex dómarar við réttinn sem til­heyra í­halds­samari armi réttarins en þrír sem til­heyra hinum frjáls­lyndari. Til­nefningin er því orðin enn eitt bar­áttu­málið fyrir for­seta­kosningarnar í Banda­ríkjunum í nóvember en á­kvörðunin gæti haft á­hrif á ýmis mál sem koma til kasta réttarins, til dæmis fóstur­eyðingar.

Demó­kratar hafa hvatt Repúblikana til stillingar og minnt á það þegar öldunga­deildin neitaði að sam­þykkja til­nefningu Barack Obama árið 2016 þar sem bíða ætti eftir nýjum for­seta til að skipa í réttinn. Þá voru tíu mánuðir í for­seta­kosningar.