Donald Trump, fyrr­verandi for­seti Banda­ríkjanna, stefnir á endur­komu á sam­fé­lags­miðlum á næstu mánuðum en honum var út­hýst af flestum miðlum, til að mynda Face­book og Twitter, eftir ó­eirðir stuðnings­manna hans við banda­ríska þing­húsið í byrjun janúar.

Jason Miller, einn helsti ráð­gjafi Trumps, greindi frá því í sam­tali við Fox frétta­stöðina í gær að Trump myndi snúa aftur innan tveggja til þriggja mánaða en að sögn Miller mun Trump stofna sinn eigin sam­fé­lags­miðil fyrir endur­komuna. Mörg fyrir­tæki hafi þegar haft sam­band við Trump fyrir slíkt.

„Þetta er eitt­hvað sem ég held að verði það heitasta á sam­fé­lags­miðlum,“ sagði Miller í þættinum Media­Buzz. „Allir vilja hann og hann mun trekkja að fleiri milljón manns, tugi milljóna, að sínum miðli,“ sagði Miller enn fremur.

Varanlegt bann hjá Twitter og Facebook

Líkt og áður segir hefur Trump ekki haft að­gang að stærstu sam­fé­lags­miðlunum frá því í byrjun árs en í­trekaðar full­yrðingar hans um kosninga­svindl og á­kvörðun hans um að for­dæma ekki að­gerðir stuðnings­manna sinna áttu þar hlut í máli. Um varanlegt bann var um að ræða hjá Twitter og Facebook.

Trump var á­kærður til em­bættis­missis vegna ó­eirðanna við þing­húsið en var að lokum sýknaður af öldunga­deildinni skömmu eftir að Joe Biden tók við em­bætti for­seta. Hann á þó enn yfir höfði sér saka­mála­rann­sókn vegna málsins.