„Þetta eru dimmir tímar fyrir þjóðina okkar, þar sem fal­lega heimili mitt, Mar-a-Lago í Palm Beach í Flórída, er um þessar mundir undir um­sátri, árás og her­numin af stórum hóp FBI full­trúa,“ segir Donald Trump í yfir­lýsingu á sam­fé­lags­miðlinum Truth Social, sem hann stofnaði sjálfur.

Banda­ríska al­ríkis­lög­reglan, FBI, fram­kvæmdi hús­leit á heimili hans í gær­kvöldi. Á­stæða hús­leitarinnar hefur ekki fengist stað­fest en hvorki dóms­mála­ráðu­neyti Banda­ríkjanna né FBI hafa tjáð sig um málið.

Trump segir slíkt aldrei haf gerst við for­seta Banda­ríkjanna áður, hús­leitin, sem hann kallar árás, hafi verið ó­vænt, ó­nauð­syn­leg og ó­við­eig­andi.

„Hver er munurinn á þessu og Wa­tergate, þar sem fólk braust inn í lands­nefnd Demó­krata? Hér, öfugt, brutust Demó­kratar inn á heimili 45. for­seta Banda­ríkjanna,“ segir Trump.

Wa­tergate var hneykslis­mál sem kom upp á áttunda ára­tug síðustu aldar þar sem starfs­fólk Richard Nixon, þá­verandi for­seti Banda­ríkjanna, var við­riðið inn­brot á Wa­tergate hótelið þar sem lands­nefnd Demó­krata hélt sínar skrif­stofur.

Trump segir vinstri­sinnaða Demó­krata ekki vilja að hann bjóði sig fram til for­seta í næstu kosningum árið 2024, og þetta sé til­raun til þess að koma í veg fyrir það. „Slík árás gæti að­eins átt sér stað í brotnum löndum þriðja heimsins. Því miður eru Banda­ríkin orðin eitt af þessum löndum, spillt á stigi sem hefur ekki sést áður,“ sagði hann.

Málið ekki jafn einfalt og Trump segir

Garrett M. Graff, blaðamaður og sagnfræðingur rýnir frekar í samanburð húsleitarinnar við Watergate. Hann segir málið ekki vera jafn einfalt og Trump lætur það líta út fyrir að vera.

Húsleitin og samþykki hennar hafi þurft að fara í gegnum æðstu valdhafa í dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna og sökum þess að um húsleit hjá fyrrverandi forseta sé að ræða hafi þurft að fara gríðarlega varlega í framkvæmd málsins.

Heimild fyrir húsleitinni hefur síðan verið samþykkt af óháðum alríkisdómara, sem telur vera ástæðu fyrir leitinni sökum þess að það sé grunur um að eitthvað glæpsamlegt hafi átt sér stað.

Graff segir húsleitina vera þýðingamestu, viðkvæmustu og pólitískustu aðgerð sem bandaríska dómsmálaráðuneytið og FBI hafi gripið til. En þetta er eitt af örfáum skiptum sem forseti, sitjandi eða fyrrverandi, hefur verið rannsakaður.

Hægt er að sjá þráð hans á Twitter hér:

Repúblikanar æfir út í al­ríkis­lög­regluna

Sam­flokks- og stuðnings­menn Donalds Trumps eru vægast sagt reiðir vegna á­kvörðun Banda­rísku al­ríkis­lög­reglunnar, FBI, um að fram­kvæma hús­leit á heimili Trumps í Mar-a-Lago á Palm Beach.

„Biden er að leika sér að eld með því að nota deilur um opin­ber skjöl til að fá dóms­mála­ráðu­neytið til að of­sækja mögu­legan mót­fram­bjóðanda,“ segir Marco Ru­bio, þing­maður Rebúblikana í full­trúa­deild Banda­ríkja­þings, á Twitter.

Ted Cruz, fyrr­verandi for­seta­fram­bjóðandi og Repúblikani segir „á­rásina,“ eins og hann og Trump orða það, vera for­dæma­lausa. Cruz segir hana vera mis­beiting valds og spillta.

Repúblikaninn Marjorie Taylor Greene er ötull stuðningsmaður Trump og hefur lagt til að það eigi að draga úr fjárframlögum til alríkislögreglunnar vegna málsins.