Rannsóknarnefnd Bandaríkjaþings um árásina á þinghúsið 6. janúar 2021 kaus í kvöld með níu atkvæðum gegn engu að kveða Donald Trump, fyrrum forseta Bandaríkjanna, til að bera vitni.

„Hann er manneskjan í þungamiðju sögu þess sem gerðist 6. janúar“, sagði formaður nefndarinnar, fulltrúadeildarþingmaðurinn Bennie Thompson. Kosið var um hvort kveða ætti Trump til að bera vitni eftir rúmlega tveggja klukkutíma skýrslu nefndarinnar um það hvernig Trump reyndi að koma í veg fyrir friðsamleg valdaskipti eftir ósigur hans í forsetakosningum Bandaríkjanna árið 2020.

Það að svíkjast undan kvaðningu þings til skýrslutöku er glæpur samkvæmt bandarískum alríkislögum. Hins vegar þykir líklegt að Trump muni kæra ákvörðun nefndarinnar um að kveða hann fyrir þing. Kvaðningin rennur út við lok núverandi þingtímabils í byrjun næsta ár. Því er tíminn naumur og óvíst að Trump muni nokkurn tímann bera vitni samkvæmt kvaðningunni.