Donald Trump Banda­ríkja­for­seti hefur heitið því að komast til botns á hvarfi sá­diarabíska blaða­mannsins Jamal Khas­hoggi sem saknað hefur verið frá því 2. októ­ber þegar hann. BBC greinir frá.

Khas­hoggi hefur verið iðinn við að gagnrýna sá­diarabísku konungsfjölskylduna og stjórnvöld þar í landi en þegar síðast sást til hans var hann á leið inn á ræðis­manns­skrif­stofu Sádi-Arabíu í Istanbúl. Þar hugðist hann ganga frá skilnaði við eigin­konu sína, svo hann gæti tekið að eiga unnustu sína.

Sjá einnig: Sagður hafa verið pyntaður, myrtur og limlestur

„Við getum ekki látið svona koma fyrir blaða­menn, eða þá hvern sem er,“ sagði Trump í gær. Hann hefur farið fram á að Sádi-Arabar, vina­þjóð Banda­ríkjanna, upp­lýsi um málið. Þá hefur Mike Pompeo utan­ríkis­ráð­herra talað við sá­diarabíska krón­prinsinn Mohammed Bin Sal­man og stjórn­völd þar í landi.

Tyrk­neskir miðlar birtu mynd­band í gær úr eftir­lits­mynda­vélum á götunum í kringum ræðis­skrif­stofuna. Þar sést Khas­hoggi ganga inn en um hálf­tíma síðar ekur svartur sendi­ferða­bíll af lóðinni. Ýmsir miðlar greindu frá ó­stað­festum fregnum á sunnu­dag sem hermdu að Khas­hoggi hefði verið pyntaður, myrtur og lim­lestur. The Guar­dian greindi frá því á vef sínum að fimm­tán Sádi-Arabar hefðu framið ó­dæðið. 

Sádi-Arabar höfnuðu á­sökunum sem á þá voru bornar og sögðu Khas­hoggi hafa yfir­gefið skrif­stofuna þegar erindi hans var lokið. Ýmsir draga það í efa, einkum unnusta hans, sem fór með honum og beið fyrir utan skrif­stofuna á meðan hann fór inn. Mynd­bands­upp­tökur sína hana meðal annars bíða fyrir utan.