Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, gagnrýndi Sadiq Khan, borgarstjóra London, harðlega á Twitter-síðu sinni í gær og kenndi honum um morðahrinu sem varð í höfuðborginni yfir helgina. Trump kallaði Khan „þjóðarskömm“ og sagði að hann væri að eyðileggja borgina.

Ummælin fylgja í kjölfar fimm árása sem urðu í London á innan við sólarhring þar sem þrír létust og þrír særðust.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, sagði að það væri hræðilegt að Trump væri að nýta sér þann harmleik að fólk hafi verið myrt til að gera árás á borgarstjórann.

Talsmaður Khan sagði að hugur borgarstjórans væri hjá fjölskyldum fórnarlambanna og að hann ætli ekki að sóa tíma sínum í að svara svona tísti. Borgarstjórinn væri að einbeita sér að því að styðja við samfélögin í borginni og neyðarþjónustu sem væri að sligast vegna álags.

Seinna tísti Khan og sagði að ofbeldisglæpir ættu sér engan stað í borginni og að öryggi borgarbúa væri hans helsta forgangsatriði.

Það sætir nokkurri furðu að forseti Bandaríkjanna kjósi að tjá sig um borgarstjóra í öðru landi á þennan hátt, en Trump er mjög óánægður með Khan vegna þess að Khan hefur gagnrýnt hann opinberlega fyrir ýmis stefnumál.

Khan sagði að Bretland og Bandaríkin hafi verið bestu vinir áratugum saman og að þegar besti vinur manns geri eitthvað rangt, þá eigi maður að láta hann heyra það.

Lögreglan í London hefur handtekið fjórtán vegna árásanna fimm. Tveir unglingar hafa verið kærðir fyrir eitt morðanna.

Alls hafa 56 morð verið framin í London á árinu hingað til, en í fyrra voru þau 132. Á sama tíma hefur 71 morð verið framið í Washington D.C., höfuðborg Bandaríkjanna, samkvæmt tölum frá lögreglu borgarinnar, en í fyrra voru þau alls 72. Trump hefur ekki gagnrýnt borgarstjóra Washington D.C. vegna glæpanna.