Donald Trump, fyrrum forseti Bandaríkjanna, hefur verið kveðinn til yfirheyrslu hjá ríkissaksóknara New York, Letitiu James, sem mun fara fram í dag. Yfirheyrslan snýst um rannsókn saksóknarans á viðskiptaháttum Trumps.

„Í New York í kvöld,“ skrifaði Trump á samfélagsmiðli sínum, Truth Social, í gær. „Hitti rasíska ríkissaksóknara N.Y.S. á morgun, út af framhaldi á mestu nornaveiðum í sögu Bandaríkjanna.“

„Frábæra fyrirtækið mitt og ég sjálfur verðum fyrir árásum frá öllum hliðum,“ skrifaði hann svo. „Bananalýðveldi!“

Letitia James, ríkissaksóknari New York.
Mynd/Getty

Yfirheyrslan er formlega ótengd rassíu sem bandaríska alríkislögreglan FBI gerði nýlega á heimili Trumps á Mar-a-Lago-óðalinu í Flórída. Rassían, þar sem FBI hafði með sér gögn sem geymd voru á óðalinu, tengdist meintum brotum Trumps á lögum um varðveislu og skil á opinberum skjölum forsetaembættisins.

Ríkissaksóknarinn Letitia James segist hafa undir höndum gögn sem benda til þess að fyrirtæki Trumps hafi beitt fölskum eða villandi úttektum á eignum sínum til þess að öðlast ýmisleg efnahagsleg fríðindi, þar á meðal lán, tryggingavernd og skattaafslátt. Fyrirtækið hafi meðal annars ýkt heildareignir sínar til að ganga í augun á lánveitendum og logið til um andvirði fasteigna sinna til að draga úr skattbyrði sinni. Jafnvel hafi verið logið til um stærð þakíbúðar Trumps á Manhattan.

Yfirheyrslan átti upphaflega að fara fram í síðasta mánuði en var frestað vegna dauða Invönu Trump, fyrrum eiginkonu Donalds Trump.