Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hefur kært bandaríska ríkið vegna húsleitar á híessubýlum hans í Mar-a-Lago, Flórídafylki.

Með þessu gæti Trump um stund stöðvað bandarísku alríkislögregluna (e. FBI) í því að skoða skjöl sem fundust í húsleitinni, eða þangað til sérstakur dómkvaddur aðili hefur verið skipaður til að meta þau

Guardian fjallar um málið, en þar er haft eftir Jim Trusty, helsta lögmanni Trump, og öðrum heimildarmönnum að í kærunni séu færð rök fyrir því að dómstóllinn ætti að skipa sérstakan dómskvaddan aðila. Slíkur aðili gæti til að mynda verið lögmaður eða dómari á eftirlaunum. Er því er haldið fram að mögulega hafi alríkislögreglan undir höndum gögn sem einungis séu ætluð ákveðnum hópi fólks.

Auk þess er þess krafist í kærunni að alríkislögreglan skili hlutum, eða gögnum, sem tengist ekki beint húsleitarheimildinni.

Í kærunni segir að húsleitin í Mar-a-Lago hafi verið „svakalega aðgangashörð aðgerð“ með „engan skilning á þjáningunni sem hún myndi valda flestum Bandaríkjamönnum“. Þá er því haldið fram að aðgerðirnar séu ósanngjarnar í garð Trump.

Talið er að í húsleitinni hafi alríkislögreglan leitað, og mögulega haft með sér á brott, skjöl sem Trump tók með sér úr Hvíta húsinu, er hann hætti sem Bandaríkjaforseti. Þá hefur verið fjallað um að mögulega varði þessi skjöl kjarnorkuvopn. Trump hefur vísað því á bug.