Donald Trump, sitjandi Bandaríkjaforseti, virðist nú loksins hafa játað sig sigraðan en hann gaf út yfirlýsingu eftir að báðar deildir Bandaríkjaþings höfðu lokið við að telja atkvæði kjörmanna og staðfest kjör Joes Biden til forseta Bandaríkjanna.

„Jafnvel þó að ég sé gjörsamlega ósammála niðurstöðum kosninganna, og staðreyndirnar styðja við mál mitt, samt sem áður munu valdaskiptin fara skipulega fram þann 20. janúar,“ sagði Trump í yfirlýsingunni. „Þetta er aðeins byrjunin á baráttu okkar til að gera Bandaríkin frábær á ný!“

Biden og Harris taka við

Eftir langa nótt, þar sem þingmenn rökræddu úrslit kosninganna í nokkrum ríkjum þar sem verulega mjótt var á munum, komst þingið að þeirri niðurstöðu, skömmu fyrir klukkan 9 í morgun að íslenskum tíma, að Joe Biden og Kamala Harris hafi unnið kosningarnar með 306 kjörmönnum.

Trump hefur ítrekað neitað að játa sig sigraðan þar sem hann heldur því fram að víðtækt kosningasvindl hafi átt sér stað í kosningunum síðastliðinn nóvember. Teymi hans hefur höfðað tugi mála fyrir dómstólum en tilraunir hans til að fá úrslitunum snúið hafa ekki borið árangur.

Vilja að Trump verði vikið úr embætti

Áður en þingið kom saman í gær ávarpaði Trump síðan stuðningsmenn sína í Washington, D.C., þar sem hann lýsti yfir óánægju sinni og hvatti fólk til að arka að þinghúsinu til að mótmæla, sem það og gerði. Ekki leið á löngu þar til fólk var komið inn í þinghúsið og stöðva þurfti umræður þingsins.

Forsetinn hefur nú verið harðlega gagnrýndur fyrir sitt hlutverk í að stofna til óeirðanna í borginni og krefjast margir þess að honum verði vikið tafarlaust úr embætti og ákærður vegna málsins en hann neitaði að fordæma aðgerðir stuðningsmanna sinna í gærkvöldi.

Í staðinn birti hann myndband á Twitter þar sem hann sagðist „elska“ stuðningsmenn sína og að þeir væru „sérstakir,“ en nú væri kominn tími til að fara heim. Twitter eyddi í kjölfarið myndbandinu og hefur aðgangi hans verið læst.

Óljóst er hvað gerist síðar í dag þegar nýr dagur rennur upp í Bandaríkjunum.