Donald Trump Banda­ríkja­for­seti og Joe Biden, for­seta­fram­bjóðandi Demó­krata, sátu báðir fyrir svörum á svo­kölluðum „town hall“ við­burðum í nótt, Trump hjá NBC News og Biden hjá ABC News. Við­burðirnir voru sama dag og aðrar kapp­ræðurnar milli Trump og Biden áttu að fara fram í Flórída.

Líkt og áður hefur verið greint frá til­kynnti NBC News frá því í vikunni að Trump kæmi til með svara spurningum frá í­búum í Miami í Flórída á fimmtu­dags­kvöldinu. At­hygli vakti að um væri að ræða ná­kvæm­lega sama tíma og Biden átti að vera að svara spurningum íbúa Phila­delp­hiu í Penn­syl­vaníu.

Þannig þurftu kjós­endur að flakka á milli sjón­varps­stöðva til að fylgjast með for­seta­fram­bjóð­endunum, í stað þess að horfa á þá svara spurningum saman líkt og á­ætlað var. Hætt var við kapp­ræðurnar milli Trump og Biden eftir að for­setinn neitaði að taka þátt í kapp­ræðunum í gegnum fjar­fundar­búnað en for­setinn greindist ný­verið með CO­VID-19.

Trump reifst við umræðustjórann og Biden svaraði í löngu máli

Ó­hætt er að segja að mikill munur hafi verið á við­burðunum tveimur í gær en Savannah Guthrie frá NBC News sá um að stjórna um­ræðunni hjá Trump á meðan Geor­ge Stephanopou­los frá ABC News sá um að stýra um­ræðunni hjá Biden. Báðir þurftu þeir að svara erfiðum spurningum frá um­ræðu­stjórunum, sem og kjós­endum.

Guthrie reyndi í­trekað að fá svör frá Trump um ýmis mál­efni, til að mynda um tíst hans þar sem hann hefur ýtt undir samsæriskenningar, og leið ekki á löngu fyrr en Trump var farinn að rífast við hana. Á sama tíma var mikið ró­legra yfir Biden og Stephanopou­los þar sem Biden svaraði spurningum í löngu máli, ó­líkt fyrstu kapp­ræðunum þar sem frammí­köll Trumps trufluðu oftast svör Biden.

COVID-19 helsta umræðuefnið

Bæði Trump og Biden voru spurðir út í CO­VID-19 far­aldurinn og svaraði Biden með því að for­setinn hafi gert of lítið úr far­aldrinum, hvatt fólk til að nota ekki grímur og í­trekað haldið stóra fjölda­fundi. Trump hefur verið harð­lega gagn­rýndur fyrir við­brögð hans við far­aldrinum en hann hélt sínu striki í gær og hélt því meðal annars fram að mikill meiri­hluti þeirra sem nota grímur smitist samt.

Þegar Guthrie benti honum á að ekkert slíkt hafi komið fram í rann­sókninni sem Trump hefur lík­legast verið að benda til svaraði Trump að hann hefði ekkert á móti því að fólk noti grímur. „Savannah, við erum í sama liði,“ sagði for­setinn. Um­ræðan færðist einnig að CO­VID-19 greiningu for­setans en Trump vildi ekki gefa upp hve­nær hann greindist síðast nei­kvæður.

Sýnatökur

Þá játaði Trump að hann hafi mögu­lega ekki farið í sýna­töku fyrir fyrstu kapp­ræðurnar, þrátt fyrir reglur þess efnis, og þannig gæti hann hafa smitað aðra. Hann gerði enn fremur lítið úr við­burðinum í Rósa­garði Hvíta hússins þegar hann til­nefndi Amy Con­ey Bar­rett í Hæsta­rétt Banda­ríkjanna en fjöl­margir sem voru við­staddir hafa nú greinst með veiruna.

Að­spurður um svar Trumps sagði Biden að hann hafi sjálfur verið ski­maður fyrir veirunni síðast í gær til að ganga úr skugga um að hann væri ekki að leggja aðra í hættu. Hann sagðist hafa minni á­hyggjur af sjálfum sér heldur en þeim sem hann um­gengst og sagði það ein­fald­lega vera lág­marks­kurteisi að sjá til þess að hann væri ekki að smita aðra.

Sagðist ætla að virða úrslitin

Annað hita­mál kvöldsins sneri að fram­kvæmd for­seta­kosninganna en í dag eru að­eins 18 dagar í að kjör­dagur renni upp í Banda­ríkjunum. Trump hefur í­trekað gefið það í skyn að hann muni ekki virða úr­slit kosninganna ef hann tapar, eitt­hvað sem hefur aldrei gerst í sögu Banda­ríkjanna. Þá hefur hann haldið því fram að póst­at­kvæði, sem eru nú meira notuð vegna CO­VID-19, geti leitt til kosninga­svindls.

Að­spurður út í málið sagði Trump að hann muni sættast á frið­sam­lega yfir­færslu valds (e. peaceful trans­fer of power) en hann sagðist vilja að um sann­gjarnar kosningar sé að ræða. „Allir aðrir vilja það líka,“ sagði for­setinn en af svörunum að dæma, og yfir­lýsinga hans um að kosningarnar verði ekki sann­gjarnar, er erfitt að sjá hvort hann muni standa við orð sín.

Hæstiréttur og kynþáttamisrétti

Önnur mál kvöldsins sneru að kyn­þátta­mis­rétti í Banda­ríkjunum, að for­setinn hafi ekki viljað for­dæma hvíta þjóð­ernis­sinna og orða Biden um að svartir kjós­endur séu ekki svartir ef þeir kjósa Trump. Bæði Trump og Biden virtust forðast að svara þeim spurningum að vissu leyti.

Þá var einnig rætt um skipun Bar­rett í Hæsta­rétt Banda­ríkjanna og vilja Demó­krata til að bæta dómara­sætum við réttinn ef Bar­rett verður skipuð, en þar svaraði Biden ekki beint. Hann sagði þess í stað að hann vildi eiga sam­tal um slíkt og það væri háð niður­stöðu öldunga­deildar þingsins.

Síðustu kappræðurnar

Trump og Biden mætast í forsetakappræðum næstkomandi fimmtudag og er um að ræða síðustu kappræðurnar fyrir forsetakosningarnar. Þær kappræður verða með svipuðu sniði og þær fyrstu en þær fara fram í Nashville í Tennessee og mun Kristen Welker frá NBC News vera umræðustjóri kvöldsins.

Kappræðurnar hefjast klukkan eitt eftir miðnætti að íslenskum tíma en sýnt verður frá kappræðunum á öllum helstu miðlum vestanhafs. Hægt er að horfa á viðburði gærdagsins í heild sinni hér fyrir neðan.