Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump hundsaði veru vopnaðra mótmælenda sem voru á leið í þinghúsið þann 6. janúar í fyrra og jafnvel ýtt undir hróp þeirra þegar mótmælendur kölluðu að þau ætluðu að „hengja Mike Pence“.
Þetta kom fram í vitnisburði Cassidy Hutchinson, fyrrum aðstoðarmanns á skrifstofu starfsmannastjórans í Hvíta húsinu, í dag þegar rannsakendur yfirheyrðu hana. Hutchinson lýsti óreiðunni sem ríkti þennan dag innan og utan heimilis forsetans á meðan hann færði rök fyrir því af hverju hann ætti að fylgja stuðningsfólki sínu í þinghúsið.
Á vef AP er fjallað ítarlega um vitnisburð Hutchinson en þar kemur fram að eftir að Trump hafi verið tilkynnt um vopnaða mótmælendur fyrir utan Hvíta húsið hafi hann sagt embættismönnum að hleypa „fólkinu hans inn“ og að þau ættu að ganga að þinghúsinu.

Hutchinson hafði það eftir Trump að hann hafi skipað starfsfólki sínu að fjarlægja málmleitartæki sem hefðu hægt á mótmælendum og í myndbandi sem spilað var fyrir nefndina af fyrrum vitnisburði hennar segir hún að forsetinn hafi sagt að honum væri alveg sama að mótmælendur væru með vopn.
„Þeir eru ekki hér til að meiða mig. Takið helvítis málmleitartækin burt. Hleypið mínu fólki inn. Þau geta gengið að þinghúsinu héðan,“ hafði Hutchinson eftir forsetanum.
Þeir eru ekki hér til að meiða mig. Takið helvítis málmleitartækin burt
Þá lýsti hún því hvernig Trump tók því þegar honum var sagt að það væri ekki öruggt fyrir hann að fara sjálfur í þinghúsið en þá á hann að hafa gripið í stýrið á brynvarða bílnum sínum. Hún sagði óljóst hvað hann hefði átt að gera í þinghúsinu en að á einum tímapunkti hefði verið rætt um að hann myndi fara inn í þingsalinn.
„Sem Bandaríkjamanni bauð mér við þessu“
Fleira kom fram í vitnisburði hennar sem þykir varpa ljósi á þennan dag með betri hætti og viðbrögð fyrrverandi forsetans. Fram kemur á AP að nefndin sem rannsakar atburði dagsins hafi kallað til yfirheyrsla með aðeins sólarhringsfyrirvara og er ætlað að upplýsa Bandaríkjamenn um það hvað gerðist á meðan stuðningsfólk Trump barði lögreglumenn, braust inn í gegnum glugga og dyr og truflaði það þegar sigur Biden var staðfestur.
„Sem Bandaríkjamanni bauð mér við þessu,“ sagði Hutchinson nefndinni þegar hún var spurð um færslur Trump um Mike Pence. „Þetta var óþjóðrækið, ó-amerískt, og á sama tíma horfðirðu á þinghúsið eyðilagt vegna lyga,“ sagði Hutchinson og að hún væri enn að vinna í gegnum tilfinningarnar sem tengdust því.