Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hótaði á Twitter í gær að eyðileggja efnahag Tyrklands ef landið gerir eitthvað sem Trump sjálfum þykir ekki í lagi í fyrirhugaðri innrás í Sýrland. Á sunnudag sagði forsetinn að Bandaríkin myndu ekki styðja aðgerðir Tyrkja, en sagði að allt bandarískt herlið yrði kallað burt frá Sýrlandi og setti ekkert út á innrásina.

Forsetinn hefur verið gagnrýndur harðlega af stuðningsmönnum sínum fyrir yfirlýsingu sunnudags, en Tyrkir ætla að beita sér gegn Kúrdum, bandamönnum Bandaríkjanna í baráttunni gegn Íslamska ríkinu.

Í gær tísti forsetinn svo og sagði að eins og hann hafi sagt áður muni hann gjöreyðileggja efnahag Tyrklands ef Tyrkir geri eitthvað sem hann, af sinni miklu og óviðjafnanlegu visku, telji óásættanlegt.

Meðal þeirra sem gagnrýndu ákvörðun forsetans um að verja ekki Kúrda eru mikilvægir stuðningsmenn hans úr Repúblikanaflokknum, eins og öldungadeildarþingmaðurinn Lindsey Graham, Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikanaflokksins í öldungadeildinni og Kevin McCarthy, leiðtogi Repúblikana í fulltrúadeildinni. Nikki Haley, sem var sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Sameinuðu þjóðunum, hefur einnig gagnrýnt ákvörðun forsetans harðlega.

Óttast er að þessi ákvörðun sé álitin svik við dygga bandamenn og minnki hollustu annarra bandamanna gagnvart Bandaríkjunum. Átök Tyrkja og Kúrda gætu hjálpað Íslamska ríkinu að ná fótfestu á Sýrlandi á ný og styrkt stöðu Rússa og Írana í Sýrlandi.