Donald Trump hefur á fyrstu þremur árum sínum í em­bætti skapað 1,5 milljón færri störf en Barack Obama gerði á seinustu þremur árum em­bættis­setu sinnar.

For­setinn hefur í­trekað montað sig af árangri sínum í efna­hags­málum á kjör­tíma­bilinu og hefur hann verið sér­stak­lega hrifinn af því að segjast hafa snúið við slæmum efna­hags­á­standi sem Obama hafi skilið eftir sig.

Nýjar tölur frá vinnu­mála­stofnun Banda­ríkjanna sýna hins vegar að 8,1 milljón nýrra starfa urðu til á síðustu þremur árum Obama sem for­seti, saman­borið við 6,6 milljón störf á fyrstu þremur árum Trump. Þýðir það sam­drátt upp á ní­tján prósent á milli kjörtímabila.

Hag­fræðingar í Banda­ríkjunum, sem banda­ríski vef­miðillin Huff­post, ræðir við segja að þessar tölur komi þeim ekki á ó­vart þar sem vinnu­markaðurinn í Banda­ríkjunum sé að verða mettaður. Færri laus störf séu í boði og færri um­sækj­endur um störfin.

Árangur Trump framar björtustu vonum

Í frétt Huff­post segir að Hvíta húsið hafi ekki viljað tjá sig um þessar tölur, en Judd Deere, upp­lýsinga­full­trúi Hvíta hússins, sagði þó að Barack Obama hefði staðið á bak við einn hægasta efna­hags­vöxt sögunnar.

„Á meðan hefur Trump farið fram úr björtustu vonum með því að skapa fimm milljónum fleiri störf en spár gerðu ráð fyrir, miklar launa­hækkanir fyrir verka­fólk og sögu­lega lágt at­vinnu­leysi,“ sagði Deere einnig.

Efna­hags­mál munu verða eitt af þeim málum sem skipta mestu máli í for­seta­kosningunum í vor og hefur Trump verið dug­legur að stæra sig af árangri í þeim, jafnvel þó að sá árangur hafi oftar en ekki verið forverum hans að þakka.