Stoðþjónusta Bandaríkjanna hefur veitt Joe Biden, sigurvegara forsetakosninganna í Bandaríkjunum heimild til að hefja ferli valdaskipta. Emily Murphy, forstjóri stofnunarinnar tilkynnti Biden þetta bréfleiðis í dag.

Þótt úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum séu flestum ljós nema ef til vill fráfarandi forseta, hefur stjórnarskiptateymi Joes Biden hvorki fengið það fjármagn og þann aðgang að upplýsingum sem til þarf til að stjórnarskiptin gangi eðlilega fyrir sig og ný stjórn verði betur í stakk búin til að takast á við faraldurinn strax í janúar.

Joe Biden og Kamala Harris hafa ekki átt sambærilega daga og forverar þeirra í kjölfar kosningasigurs í Bandaríkjunum.
Getty.

Murphy hefur ekki viljað aðhafast neitt „þar til úrslitin verða ljós“ eins og hún hefur sjálf sagt, en vottun úrslitanna í Michigan á mánudag hefur gert útslagið og Biden fær nú bæði fjármagn, aðstöðu og aðgang að embættismönnum til að undirbúa sig fyrir valdaskiptin.

Fyrsta skrefið í viðurkenningu á ósigri

Segja má að bréf Murphy til Biden þýði að Murphy hafi formlega undirritað sigur Bidens en í umfjöllun bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN segir að bréfið sé einnig fyrsta skref stjórnar Trumps forseta í viðurkenningu ósigurs í kosningunum 3. nóvember síðastliðinn.

Í tísti forsetans um málið fyrir stundu þakkar hann Murphy fyrir staðfestu sína, þrátt fyrir áreitni, hótanir og ofbeldi í hennar garð. Barátta hans og liðsmanna hans haldi þó áfram, og hann búist við sigri. Í þágu lands og þjóðar mæli hann þó með að Emily og hennar starfslið geri það sem þurfi til að koma valdaskiptaferlinu af stað. Hann hafi beðið sitt starfslið að gera það sama.

Greint var fyrst frá tíðindunum á mánudagskvöld á vef bandaríska blaðsins New York Times og Maggie Haberman, fréttaritari blaðsins í Hvita húsinu birti bréf Murphy á Twitter.