Það er ekki að spyrja að Donald Trump þegar kemur að umhverfismálum en honum virðist ekki mikið í mun að taka þátt í umhverfisvernd með öðrum leiðtogum heims. Nýjasta útspil hans er að gagnrýna Ford, sem er bandarískt fyrirtæki, fyrir að taka þátt í markmiðasetningu um minni losun útblásturs í Kaliforníu ásamt þremur öðrum bílaframleiðendum. Í gagnrýni Trumps á Ford kom fram að honum þykir alveg galið að taka þátt í markmiðasetningu sem þvingar bílaframleiðendurna til að framleiða bíla sem eru 3.000 dollurum dýrari en þeir annars þyrftu að vera „bara til að þeir mengi minna“!

Trump bætti við að Henry Ford myndi líklega snúa sér við í gröfinni yfir þessum ákvörðunum forsvarsmanna Ford nú. Auk þess myndu þessir bílar virka ver og vera ekki eins öruggir, hvernig sem hann fær það út. „Algerlega galið, eins og Trump orðaði það. Trump bætti því við að kröfur Kaliforníu myndi á endanum gera bílaframleiðendurna gjaldþrot með þessu áframhaldi.

Markmiðið 5,6 lítrar árið 2026

Þeir bílaframleiðendur sem tekið hafa þátt í þessari markmiðasetningu í Kaliforníu auk Ford, eru Volkswagen Group, Honda og BMW og horfir markmiðasetningin til ársins 2026, en þá eiga bílar þeirra að meðaltali að eyða ekki meira en 5,6 lítrum á hverja ekna 100 kílómetra. Trump vill frysta alla markmiðasetningu í þessa áttina og halda sig við mun lágstemmdara núverandi markmið um 7,2 lítra eyðslu til frá 2021 til 2026.

Trump er greinilega fyrir eyðsluháka og kærir sig kollóttan um mengun þeirra. Ráðamenn í Kaliforníu hafa í engu farið að skoðunum Trump og setja einhliða reglur í ríkinu um mun strangari eyðslumarkmið en gilda í öðrum ríkjum landsins.

Ford stolt að leiða markmiðin

Ford segir að fyrirtækið sem stærsti bílaframleiðandi Bandaríkjanna sé stolt að því að leiða markmiðasetningu um minnkandi eyðslu og mengun og muni feta þá braut til að stuðla að betri heimi. Trump vill hinsvegar reyna að fella út lög sem sett voru á Obama tímanum sem kveða á um strangari eyðslumarkmið.

Demókratar í Bandaríkjunum hafa hinsvegar þrýst á GM, Fiat Chrysler og tólf aðra erlenda bílaframleiðendur að mótmæla áætlunum Trump og taka þátt í strangari markmiðasetningu og að taka þátt í þeim í Kaliforníu.