Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fordæmdi árásina á þinghúsið í Bandaríkjunum í ávarpi sem hann birti á Twitter-reikningi sínum í nótt. Hann sagði að sér, eins og öðrum Bandaríkjamönnum hefði misboðið árásin á þinghúsið í Washington, D.C og stórfelldu líkamsárásirnar og lögleysan sem þar ríkti á miðvikudag. Hann sagði að hann hefði um leið kallað út þjóðvarðliðið og alríkislögreglumenn til að tryggja öryggi byggingarinnar.
„Við verðum alltaf að vera þjóð lög og reglu,“ sagði Trump og að mótmælendurnir hefði mengað heilagan stað lýðræðis í Bandaríkjunum.
„Þið standið ekki fyrir allri þjóðinni,“ sagði Trump í ávarpi sínu.
Nýttu allar leiðir til að verja lýðræðið
Hann sagði að fólk yrði nú að róa sig og halda áfram í átt að framtíð. Hann sagði að teymi hans hefði nýtt allar lögmætar leiðir til að vefengja kosningarnar en að það hefði aðeins verið til að tryggja heilindi kosninganna. Þannig hafi hann vilja verja lýðræðið.
Hann sagði að þingið væri nú búið að staðfesta niðurstöðurnar og það væri því hans hlutverk núna að tryggja „snyrtilega, þægilega og saumlaus valdaskipti“.
Hann sagði síðasta árið hafa verið áskorun fyrir Bandaríkjamenn og heimsfaraldurinn hefði haft alvarleg áhrif á þjóðina. Það krefðist samvinnu allra að komast í gegnum það.
Hann sagði að það væri heiður lífs hans að þjóna þjóðinni sem forseti og sagði við stuðningsmenn sína að vegferð þeirra væri rétt að hefjast.
Ávarpið er hægt að horfa á í heild sinni hér að neðan.
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) January 8, 2021