Donald Trump Bandaríkjaforseti var fluttur með hraði í neðanjarðarbyrgi Hvíta hússins á föstudagskvöld þegar hundruð mótmælenda söfnuðust saman fyrir utan forsetabústaðinn.

AP fréttaveitan greinir frá þessu og hefur eftir ónefndum embættismönnum að hluti hópsins hafi kastað grjóti og hamast á götuvígi lögreglu.

Borið hefur á háværum mótmælum víða um Bandaríkin að undanförnu vegna dauða George Floyd, sem kafnaði í höndum lögreglu fyrir viku síðan. Þá hafa miklar óeirðir brotist út í nokkrum borgum og Þjóðvarðliðið verið ræst út í 17 ríkjum.

Er Trump sagður hafa verið hátt í klukkutíma í byrginu á föstudag sem var hannað fyrir neyðartilvik á borð við hryðjuverkaárásir.

Ákvörðunin er sögð undirstrika ástandið í Hvíta húsinu þar sem nálæg hróp og köll mótmælenda í Lafayette Park hafa ómað alla helgina. Þá hafa leyniþjónustumenn og lögregla átt erfitt með að halda aftur af þvögunni.

Trump er sagður hafa tjáð ráðgjöfum sínum að hann hafi áhyggjur af öryggi sínu á sama tíma að hann lofar viðbrögð leyniþjónustunnar á opinberum vettvangi.

Ekki liggur fyrir hvort Melania Trump eiginkona hans og sonur þeirra Barron hafi einnig farið niður í byrgið.