Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur veitt heimild fyrir því að verkfræðingar hersins fái milljarð Bandaríkjadala, eða jafngildi 121 milljarðs íslenskra króna, til að byggja múr á landamærum Mexíkó.

BBC greinir frá þessu. Peningarnir eru veittir á grundvelli neyðarástands sem Trump hefur lýst yfir í Bandaríkjunum. Um er að ræða fyrstu fjárveitingu úr sjóðum ríkisins vegna neyðarástands.

Segja má að Trump hafi allt frá því í kosningabarátunni haft múr á landamærunum á heilanum. Þingið féllst ekki á að tryggja forsetanum fjármögnun múrsins en hann reyndi árangurslaust að fá það í gegn að fá 5,6 milljarða dala til verksins.

Nú hefur Pentagon látið milljarð dala í verkið, eins og áður segir.

Demókratar hafa mótmælt ákvörðun Varnarmálaráðuneytisins og gagnrýna að ákvörðunin hafi ekki verið borin undir varnarmálanefnd þingsins. Fjárveitingin standist ekki stjórnarskrá.

Múrin, sem í raun gæti orðið rammgerð og fimm metra há girðing, á að vera 91 kílómetri að lengd. Trump hefur sagt að nauðsynlegt sé að stoppa stöðugt flæði glæpamanna yfir landamærin. Gagnrýnendur hafa hins vegar sagt að Trump hafi sjálfur stuðlað að því ástandi sem er við landamærin.

Tvo þriðju hluta þingmanna beggja þingdeilda þarf til að snúa við ákvörðun forsetans um að lýsa yfir neyðarástandi. BBC telur ólíklegt að slíkur meirihluti sé fyrir hendi.