Donald Trump Bandaríkjaforseti er mættur aftur í Hvíta húsið, fimm dögum eftir að greint var frá því að hann hefði greinst með kórónuveiruna sem veldur COVID-19.
AP-fréttastofan vísaði nú síðdegis í nýtt minnisblað frá lækni Trump, Sean Conley, sem segir að forsetinn hafi sofið vel í nótt og í morgun hafi hann verið einkennalaus. Í gær sagði Conley þó að Trump væri ekki alveg kominn „út úr skóginum“ og þessi vika þyrfti að fá að líða.
Trump hvatti fólk í gær til að hafa ekki áhyggjur af veirunni og í dag líkti hann faraldrinum við árstíðabundna inflúensu. Benti hann á að um 100 þúsund manns deyi árlega af völdum inflúensunnar og það þrátt fyrir að bóluefni sé til staðar. „Ætlum við að loka landinu vegna þess? Nei, við höfum lært að lifa með flensunni, alveg eins og við munum læra að lifa með Covid,“ sagði Trump á Twitter.
Trump hyggst hefja kosningabaráttu sína aftur fljótlega og stefnir hann ótrauður á að taka þátt í kappræðum við Joe Biden sem fyrirhugaðar eru í Miami í næstu viku.
Trump hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir að gera lítið úr faraldrinum. Nú síðast steig Joe Biden, forsetaefni Demókrata, fram og sagði að enn væri ástæða til að hafa áhyggjur af faraldrinum.