Donald Trump, sitjandi Banda­ríkja­for­seti, er sagður hafa skipað teymi sínu að stöðva allar greiðslur til Rudy Giuli­ani, hans helsta lög­manns, en að því er kemur fram í frétt CNN um málið er Trump pirraður yfir því að hafa verið á­kærður til em­bættis­missis í annað sinn.

Ekki liggur þó fyrir hvort Trump hafi verið al­vara en hann er sagður hafa snúist gegn ýmsum aðilum í kjöl­far gær­dagsins, þegar meiri­hluti full­trúa­deildarinnar sam­þykkti að á­kæra Trump fyrir að hvetja til upp­reisnar í tengslum við ó­eirðirnar við þing­húsið í síðustu viku. Trump er sagður kenna Giuli­ani um þá stöðu sem hann er nú í.

Jason Miller, einn helsti ráð­gjafi kosninga­t­eymis Trumps, tók aftur á móti fyrir það að sam­band Trumps og Giuli­ani væri stirt en hann sagði Trump hafa kallað Giuli­ani „frá­bæran gaur og föður­lands­vin“ sem hefur gert ýmis­legt fyrir banda­rísku þjóðina.

Mikil ólga

Sjálfur neitar Trump að taka á­byrgð á gjörðum sínum í tengslum við óeirðirnar og hefur ein­angrast gífur­lega þar sem sí­fellt fleiri Repúblikanar snúast gegn honum. Mikil ólga er nú innan Hvíta hússins en heimildar­maður CNN segir Trump vera í sjálfs­vor­kunnar­ham og að allir séu reiðir við alla.

Trump á nú að­eins sex daga eftir í em­bætti en þann 20. janúar næst­komandi tekur Joe Biden við sem 46. for­seti Banda­ríkjanna. Þó er óttast hvað Trump muni gera þangað til og var því á­kveðið að grípa til að­gerða. Hann er nú eini for­seti sögunnar til að vera á­kærður til embættismissis tvisvar.

Líkt og áður segir munu á­kærurnar gegn Trump verða teknar fyrir af öldunga­deild þingsins og er ljóst að Giuli­ani myndi spila þar stórt hlut­verk en ó­ljóst er hvernig sam­band þeirra mun þróast þangað til og hversu mikils stuðnings Trump nýtur.