Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur enn á ný verið harðlega gagnrýndur fyrir umsvif sín á Twitter. Forsetinn endurtísti í dag myndbandi af hópi eldri borgara á fjöldafundi til stuðnings Trump í Flórída, þar stuðningsmenn og andstæðingar forsetans hreyttu óyrðum hvort í annað.

Í myndbandinu sést einn stuðningsmaður forsetans öskra „white power“ eða „hvítur máttur“ úr golfbíl sínum, eftir að hafa verið kallaður rasisti af andstæðingi forsetans.

Í tístinu þakkaði Trump hinu „frábæra fólki úr The Villages,“ og átti hann þar við samfélag eldri borgara í Orlando þar sem fjöldafundurinn var haldinn. Þá bætti hann við að „öfgavinstrimenn og aðgerðalausir demókratar munu falla í haust. Spillti Joe hefur verið skotinn.“ Færslunni og þar með ummælum forsetans hefur nú verið eytt af Twitter.

Skjáskot af tísti Trump.
Mynd/Twitter

Sakaður um að kynda undir kynþáttafordóma

Trump hefur ítrekað verið sakaður um að hella olíu á eldinn þegar kemur að þeirri vaxandi spennu sem hefur myndast vegna kynþáttamisréttis í Bandaríkjunum síðastliðnar vikur. Forsetinn þvertekur fyrir slíkar ásakanir.

Tim Scott, eini svarti þingmaður Repúblikana í öldungadeild, sagði myndbandið vera móðgandi og kallaði eftir því að forsetinn myndi eyða tístinu. „Það er enginn vafi um að hann hefði aldrei átt að endurtísta þessu og að hann ætti bara að fjarlægja það,“ sagði Scott í samtali við fréttastofu CNN.