Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, ætlar að bjóða sig aftur fram til forseta árið 2024. Það tilkynnti hann í nótt. Hann var forseti Bandaríkjanna frá 2016 til 2020 en tapaði svo fyrir núverandi forseta, Joe Biden. Hann fer þá fram sem frambjóðandi Repúblikanaflokksins og fær þá annað tækifæri til að mæta Biden í forsetaslag.
Trump tilkynnti um framboðið á heimili sínu að Mar-a-Lago í Flórida aðeins viku eftir þingkosningar en þar höfðu Repúblikanar ekki eins stóran sigur og þeir höfðu ætlað sér. Ávarp Trump varði tæpa klukkustund og voru hundruð viðstödd til að hlusta á hann.
„Til að gera Ameríku frábæra aftur þá tilkynni ég um framboð mitt til forseta Bandaríkjanna,“ sagði hann við viðstadda en meðal þeirra voru fjölskyldumeðlimir, stórir styrktaraðilar og fyrrverandi starfsfólk hans.
„Fyrir tveimur árum vorum við frábær þjóð og bráðum verðum við það aftur.“

Á vef Reuters segir að í ræðu hans hafi verið að finna þekkt þemu um innflytjendur, dauðarefsingu fyrir vímuefnasala og að hann myndi ráða aftur í herinn hermenn sem var vísað úr honum fyrir að þiggja ekki bóluefni gegn Covid-19.
Hann talaði þó ekkert um kosningasvindl í kosningunum árið 2020 eins og hann hefur oft gert og minntist ekki á árás stuðningsmanna hans á þinghúsið þann 6. janúar 2021 þar sem þeir reyndu að koma í veg fyrir að sigur Biden yrði staðfestur.

Hvað varðar viðbrögð Biden við framboði Trump sagðist hann „eiginlega ekki hafa þau“ þegar fréttamenn náðu tali af honum á Balí þar sem hann er á G20 ráðstefnu en birti svo á Twitter myndband þar sem hann gagnrýndi forsetatíð Trump.
Á vef Reuters segir að þrátt fyrir að framboð til forsetaefna flokkanna komi vanalega snemma fram á kjörtímabilinu sé þetta óvenju snemmt og talið líklegt að Trump vilji hvetja aðra sem hafa hugsað sér framboð að hætta við það en nöfn sem hafa verið nefnd í því samhengi eru ríkisstjóri Flórída Ron DeSantis, fyrrverandi varaforseti Trump, Mike Pence, Glenn Youngkin, Greg Abbott, Nikki Haley og fyrrverandi utanríkisráðherrann Mike Pompeo.
Donald Trump failed America. pic.twitter.com/fylyocYcse
— Joe Biden (@JoeBiden) November 16, 2022