Fyrr­verandi for­seti Banda­ríkjanna, Donald Trump, ætlar að bjóða sig aftur fram til for­seta árið 2024. Það til­kynnti hann í nótt. Hann var for­seti Banda­ríkjanna frá 2016 til 2020 en tapaði svo fyrir nú­verandi for­seta, Joe Biden. Hann fer þá fram sem fram­bjóðandi Repúblikana­flokksins og fær þá annað tæki­færi til að mæta Biden í for­seta­slag.

Trump til­kynnti um fram­boðið á heimili sínu að Mar-a-Lago í Flórida að­eins viku eftir þing­kosningar en þar höfðu Repúblikanar ekki eins stóran sigur og þeir höfðu ætlað sér. Á­varp Trump varði tæpa klukku­stund og voru hundruð við­stödd til að hlusta á hann.

„Til að gera Ameríku frá­bæra aftur þá til­kynni ég um fram­boð mitt til for­seta Banda­ríkjanna,“ sagði hann við við­stadda en meðal þeirra voru fjöl­skyldu­með­limir, stórir styrktar­aðilar og fyrr­verandi starfs­fólk hans.

„Fyrir tveimur árum vorum við frá­bær þjóð og bráðum verðum við það aftur.“

Melania, eiginkona Trump, var með honum.
Fréttablaðið/Getty

Á vef Reu­ters segir að í ræðu hans hafi verið að finna þekkt þemu um inn­flytj­endur, dauða­refsingu fyrir vímu­efna­sala og að hann myndi ráða aftur í herinn her­menn sem var vísað úr honum fyrir að þiggja ekki bólu­efni gegn Co­vid-19.

Hann talaði þó ekkert um kosninga­svindl í kosningunum árið 2020 eins og hann hefur oft gert og minntist ekki á árás stuðnings­manna hans á þing­húsið þann 6. janúar 2021 þar sem þeir reyndu að koma í veg fyrir að sigur Biden yrði stað­festur.

Mikill fjöldi var samankominn að hlusta á ræðu Trump.
Fréttablaðið/Getty

Hvað varðar við­brögð Biden við fram­boði Trump sagðist hann „eigin­lega ekki hafa þau“ þegar frétta­menn náðu tali af honum á Balí þar sem hann er á G20 ráð­stefnu en birti svo á Twitter mynd­band þar sem hann gagn­rýndi for­seta­tíð Trump.

Á vef Reu­ters segir að þrátt fyrir að fram­boð til for­seta­efna flokkanna komi vana­lega snemma fram á kjör­tíma­bilinu sé þetta ó­venju snemmt og talið lík­legt að Trump vilji hvetja aðra sem hafa hugsað sér fram­boð að hætta við það en nöfn sem hafa verið nefnd í því sam­hengi eru ríkis­stjóri Flórída Ron DeSantis, fyrr­verandi vara­for­seti Trump, Mike Pence, Glenn Young­kin, Greg Ab­bott, Nikki Haley og fyrr­verandi utan­ríkis­ráð­herrann Mike Pompeo.