„Þetta myndi sennilega varða sóttvarnalög ef hann væri búsettur á Íslandi,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, um Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.

Trump greindist með COVID-19 þann 2. október síðastliðinn og var í kjölfarið lagður inn á sjúkrahús þar sem hann fékk meðal annars súrefnis- og lyfjagjöf. Forsetinn var útskrifaður af sjúkrahúsi 5. október og sagðist aldrei hafa verið betri. Í fyrradag greindi hann þá frá því í viðtali á sjónvarpsstöðinni Fox að hann hygðist halda fund með stuðningsmönnum sínum í kvöld.

Már segist eiga erfitt með að meta ástand forsetans einungis í gegnum fréttaflutning, en segir margt benda til þess að Trump hafi fengið meðal væg eða alvarleg einkenni COVID-19. „Það liggur fyrir að hann hafi farið á sjúkrahús og fengið súrefni þannig að hann var ekki einkennalaus.“

Þá bendir hann á að meginþorri þeirra sem smitist af sjúkdómnum fái engin eða lítil einkenni, en um 15 prósent þeirra sem smitist geti orðið alvarlega veikir, þar spili áhættuþættir líkt og aldur, undirliggjandi sjúkdómar og ofþyngd inn í. „Nú veit ég ekkert um forseta Bandaríkjanna nema það sem maður sér og það er klárt að hann er aldraður og hann er svona í rúmum holdum, þannig að hann er líklega með tvo áhættuþætti,“ segir Már.

„Samkvæmt þeim skilmerkjum sem við vinnum eftir hér á landi þá væri hann ekki laus úr einangrun, í fyrsta lagi veit ég ekki hvort hann sé læknaður og í öðru lagi myndum við ekki telja öruggt að hann væri ekki smitandi,“ segir Már.