Donald Trump, Banda­ríkja­for­seti, hefur á­kveðið að af­nema undan­þágur frá refsi­að­gerðum fyrir lönd sem enn kaupa olíu af Íran, að því er fram kemur á Trump af­nemur undan­þágur vegna olíu­við­skipta við Íran, að því er fram kemur á vef BBC. Þetta þýðir að undan­þágur fyrir Kína, Ind­land, Japan, Suður-Kóreu og Tyrk­land munu renna út í maí og gætu löndin orðið fyrir refsi­að­gerðum af hálfu Banda­ríkja­manna eftir það.

Trump ríkis­stjórnin hefur frá því á síðasta ári reynt að búa svo um hnútana að tekjur Írana vegna olíu­út­flutnings verði að engu, eftir að Banda­ríkin á­kváðu að yfir­gefa kjarn­orku­samning Íran við vestur­veldin.

Undir samningnum, sem ríkis­stjórn Obama sam­þykkti árið 2015, skuld­bundu Íranir sig til að lág­marka kjarn­orku­getu sína gegn því að al­þjóð­legum refsi­að­gerðir yrðu af­numdar. Trump gagn­rýndi samninginn í­trekað í kosninga­bar­áttu sinni og sagði hann veikja stöðu Banda­ríkja­manna og banda­manna þeirra í mið­austur­löndum.

Ríkis­stjórn Trump hefur lýst því yfir að hún vonist með refsi­að­gerðunum til að fá írönsk stjórn­völd að samninga­borðinu og sam­þykkja nýjan samning þar sem tekið yrði á eld­flauga­eign Írana sem og „stuðningi Írana við öfga­hópa í mið­austur­löndum.“ Refsi­að­gerðirnar hafa haft víð­tæk á­hrif á íranskan efna­hag og hefur verð­bólga aldrei verið eins há í landinu.