Donald Trump, for­seti Banda­ríkjanna, er á heim­leið eftir að hafa dvalið á sjúkra­húsi vegna CO­VID-19. Í færslu sinni í kvöld sagði hann fólki að hræðast ekki sjúk­dóminn. „Mér líður betur en mér leið fyrir 20 árum!,“ sagði hann.

Donald Trump Banda­ríkja­for­seti segir að hann sé á heim­leið eftir að hafa dvalið á Walter Reed-sjúkra­húsinu undan­farnar þrjár nætur. Trump sagði þetta á Twitter-síðu sinni fyrr í kvöld en í skila­boðunum sagði hann fólki að óttast ekki CO­VID-19.

„Ég út­skrifast af Walter Reed-sjúkra­húsinu í dag klukkan 18:30. Mér líður mjög vel! Ekki hræðast Co­vid. Ekki láta það stjórna lífi þínu,“ sagði Trump og bætti við að mörg gagn­leg lyf hefðu verið þróuð í tengslum við sjúk­dóminn og þekkingin á eðli hans væri einnig að aukast.

Trump klikkti svo út með þessum orðum: „Mér líður betur en mér leið fyrir 20 árum!“

Sean Conl­ey, læknir for­setans, sagði í dag að Trump væri nógu hraustur til að fara heim að mati þeirra lækna sem hafa með­höndlað hann. Hann væri þó ekki alveg „kominn út úr skóginum“ eins og hann orðaði það.

CNN hefur eftir heimildar­mönnum sínum að nánir sam­starfs­menn Trumps hafi hvatt hann til að dvelja lengur á sjúkra­húsi, sér­stak­lega ef heilsu hans myndi hraka aftur.

Það væri ekki einungis hættu­legt heilsu hans því það gæti einnig haft á­hrif á al­mennings­á­litið ef hann færi of snemma af sjúkra­húsi. Aðrir heimildar­menn CNN segja hins vegar að Trump hafi verið kominn með leið á sjúkra­húss­vistinni. Þá hefði hann á­hyggjur af því að al­menningur teldi hann veik­burða ef hann dveldi of lengi á sjúkra­húsi.